Geggjuð súpa sem kemur af vef allskonar.is
þessa súpu er nauðsynlegt að nota nýjar og helst íslenskar gulrætur til að fá súpuna sæta og góða.
Gott hráefni er nauðsyn til að útkoman verði góð.
Gulrótarsúpa f.4
- 3 msk smjör
- 1 laukur, fínsaxaður
- 2 hvítlauksrif, söxuð
- 4cm engiferrót, rifin
- 2 tsk cumin, malað
- 1/4 tsk kanill, malaður
- 1/2 tsk chiliflögur
- 600gr gulrætur, sneiddar
- 750ml vatn
- 2 teningar grænmetiskraftur
- 165ml kókosmjólk(lítil dós)
- 1 tsk sítrónusafi
- 4 tsk hunang
- salt og pipar
- 1/2 tsk ristuð cuminfræ
- 2 fínsaxaðar döðlur
Undirbúningur: 10 mínútur
Suðutími: 25 mínútur
Bræddu smjörið í stórum potti við meðalhita. Bættu söxuðum lauk út í og steiktu þar til laukurinn er mjúkur en ekki farinn að brúnast. Bættu þá við hvítlauk, engifer og kryddunum; cumin, kanil, chiliflögum og steiktu í um mínútu þar til allt fer að ilma. Bættu þá við gulrótunum og steiktu í 2-3 mínútur, hrærðu vel í á meðan og athugaðu að hafa ekki of háan hita á pottinum til að kryddið brenni ekki.
Bættu nú vatninu og soðteningunum út í, settu lok á pottinn og láttu malla rólega í um 20 mínútur eða þar til gulræturnar eru mjúkar.
Notaðu töfrasprota til að mauka súpuna, þú getur líka sett hana í matvinnsluvél eða mixer, eða stappað hana með kartöflustappara.
Bættu salti og pipar og hunangi ásamt sítrónusafanum út í og smakkaðu til. Settu nú kókosmjólkina og döðlurnar út í.
Þurrristaðu cumin fræ á pönnu í 10 sekúndur og fínsaxaðu möndlur, til að setja ofan á súpuna í hverjum disk, það er líka gott að setja smá ferskt kóríander eða steinselju og smá hreina jógúrt út í hvern disk.
Dásamleg súpa borin fram með flatkökum eða nýbökuðu brauði.
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!