Hægara sagt en gert að fá tíma hjá sálfræðingi! – Þjóðarsálin

Ég á dóttur á fyrstu árum grunnskóla og það hefur verið að hrjá hana einhverskonar kvíði núna í haust, hvers vegna veit ég ekki. Hún hefur verið að fá kvíðaköst þar sem hún grætur af litlu tilefni og getur ekki sofnað og svoleiðis og að öllu leyti virðist barnið daprara en vanalega.
Við pabbi hennar tókum því ákvörðun um að tala um þetta við námsráðgjafa skólans. Það gekk mjög vel og auðvelt að fá tíma þar og við spjölluðum við hann og svo leið tíminn og dóttirin fékk líka samtalstíma hjá henni. Hlutirnir virtust þó ekki breytast mikið og við ákváðum þá að tala við námsráðgjafann um það að koma litlu stelpunni til sálfræðings. Við fengum að vita hjá henni að við ættum að hringja á Heilsugæsluna og fá tíma hjá sálfræðingnum þar.

Ég hringdi í Heilsugæsluna og þá var mér sagt að sálfræðingurinn væri á ráðstefnu og kæmi eftir viku. Ég beið í viku og jú sálfræðingurinn hringdi. Þegar ég ætlaði að fara að segja henni hvert erindi mitt væri stoppaði hún mig hinsvegar og sagði mér að ég þyrfti ekki að segja henni alla söguna heldur þyrfti ég að panta tíma hjá heimilislækni með stelpuna og tala við hann á undan. „Hringdu bara aftur á heilsugæsluna og pantaðu  hjá heimilislækni með hana“ en hún gat ekki bara gefið mér tíma eða í það minnsta samband fram í afgreiðsluna. Ég spurði hana af hverju þetta væri svona og svörin voru þau að hún væri með svo stórt svæði sem hún væri að sjá um og þess vegna væri þetta svona mikið mál (svaraði engu fyrir mér)

Ég panta því tíma og fékk tíma eftir viku í viðbót. Við mæðgurnar förum svo til læknisins á tilsettum degi og ég reyndi að útskýra fyrir dóttur minni hvers vegna ég væri að sækja hana í skólann til að fara til læknis til að fara til annars læknis. Hjá lækninum áttum við að fara að rekja vandamálið og ég sagði lækninum aðeins hvað vandamálið væri en svo fengum við 7 bls af eyðublöðum með okkur heim til að fylla út og skila á heilsugæslustöðina aftur.

Meðan við vorum hjá lækninum hringdi læknirinn í sálfræðinginn og spurði hana (ég heyrði í sálfræðingnum í gegnum símann) hversu langur biðtími var hjá henni. Svarið hennar var “það er bara ENGIN bið, við erum með svo gott kerfi!” Ég hugsaði nú með mér “frábært kerfi alveg, þetta er svo mikið vesen að það stendur enginn í þessu.”

Við semsagt förum með 7 bls af eyðublöðum frá heilsugæslunni, en þegar við vorum rétt komnar heim hringir síminn og þá er það læknirinn sem segir mér að hún hafi gleymt að láta mig fá eitt eyðublað sem ég verði að fylla út líka, auk þess sem barnsfaðir minn verði að skrifa undir það líka. ÞARNA VAR MÉR ALLRI LOKIÐ! Ég átti semsagt að fylla út 7 blaðsíðurnar, koma með þær upp á heilsugæslu og skila því inn og taka svo annað með mér heim til að skrifa á og láta barnsfaðir minn undirrita og koma því aftur upp á heilsugæslu, TIL ÞESS AÐ FÁ SÁLFRÆÐITÍMA FYRIR BARNIÐ mitt!!! Það var eins og ég væri að fara með barnið í forsetaframboð, þvílíkt nálarauga að komast í gegnum til að fá tíma fyrir barnið.

Ég á ekki orð yfir þessa hörmulegu þjónustu og langaði að koma þessu á framfæri fyrir aðra til að læra af og nýta sér þessa reynslu mína.

Kv X

SHARE

LEAVE A REPLY

Please enter your comment!
Please enter your name here