Ég er lítið í því að velta fyrir mér símafyrirtækjum og hvað þau hafa að bjóða. Ég skal alveg viðurkenna að ég er ákaflega fáfróð á því sviði. Ég smellti mér í viðskipti við ákveðið fyrirtæki þegar ég flutti úr foreldrahúsum á sínum tíma. Og þar hef ég bara haldið mig. Ég er fljót að skella á þegar einhver hringir og reyndir að bjóða mér betur. Þetta er eitthvað sem ég nenni ekki að veltast með. Ef internetið er þarna, jú og sjónvarpið – þá er ég bara sátt. Ansi góð.
Ég lenti svo í fremur óheppilegu atviki fyrir stuttu. Eða þetta hefur eiginlega verið röð atvika. Fyrir jólin fékk ég mér spánýjan snjallsíma, þó fyrr hefði verið. Og tók þennan nýfundna tæknifrömuð sem ég var orðin bara alla leið – já ég nældi mér í Netflix sama dag. Allt að gerast. Og ég svona líka sátt með lífið og tilveruna. Sprangandi um með nýja símann á milli þess sem ég horfði á misgóðar bíómyndir.
Ég kem heim einn daginn og mér mætir lafhægt internet. Eftir að hafa endurræst allan búnað 12 sinnum og íhugað að henda tölvunni út um gluggann, jafnvel sjálfri mér – ákveð ég að hringja í þjónustuver símafyrirtækisins. ,,Já, við hægðum á þér – gagnamagnið var búið. Þetta ætti að komast í lag eftir mánaðarmótin. Nú svo get ég boðið þér að versla þér auka gagnamagn og þá kippist þetta í liðinn bara en, to, tre.”
Ég var ekki alveg nógu sátt með þessar útskýringar hans. Enda þótti mér netnotkun mín ekkert hafa breyst neitt gríðarlega. ,,Varstu að fá þér Netflix?”
Jú, þar lá hundurinn grafinn. Netflixið hafði farið með gagnamagnið. Vel gert Svanhildur. Símareikningurinn orðinn himinhár og stoltið sært.
Ekki endaði gleðin þar. Svo fæ ég símareikninginn fyrir bölvaðan snjallsímann. Ég þori ekki einu sinni að segja upphæðina. Ég fer að gráta við tilhugsunina. Með símanum fékk ég einhvern pakka, 500 mínútur og 500 megabæt. Það átti alveg að duga mér. Annað kom heldur betur á daginn. Aldrei var ég vöruð á nokkurn hátt við að ég væri að sprengja alla gagnamagnsskala. Ó, nei. Mér var bara leyft að vafra frjálsi um óraveröld internets og samfélagsmiðla á meðan ég var sektuð í leyni. Sektum sem ég fékk svo bara í hausinn með símareikningnum. 37 þúsund krónur. 37 ÞÚSUNDKALLAR!
Eftir væl í vinum og vandamönnum., vel völdum ættingjum og mömmu – fékk ég skammir í hattinn fyrir að vera alltof vanaföst. Ég yrði að kynna mér hvað öll þessi fyrirtæki væru að bjóða. Sem ég og gerði. Með dálitlum trega. En það var komið gat á veskið sem ekki svo auðveldlega var hægt að bæta.
Nú hef ég átt í tveggja mánaða sællegu sambandi við Hringiðuna. Sambandið er eins og best verður á kosið – ljósleiðari með ótakmörkuðu gagnamagni á 6990 krónur. Ásamt stórfínum díl fyrir snjallsímann minn góða.
Buddan er hægt og rólega að komast til lífs á ný eftir mikið áfall. Og sjálf er ég öll að koma til. Það hjálpar að minnsta kosti töluvert að geta horft á Pretty Little Liars á Netflix án þess að þurfa að hafa áhyggjur.
Það er sko enginn sem fær að sekta mig fyrir að hanga á netinu!
Svanhildur Sól er ung kona sem býr í austurhluta borgarinnar. Hún hefur gaman að lífinu og skrifar um allt milli heima og geima.