Sterkar og áleitnar nektarmyndir þýska ljósmyndarans Juliu Fullerton-Batten eru í hrópandi ósamræmi við þau viðteknu viðhorf sem almenn þykja fögur um naktar konur.
Serían, sem ber heitið Unadorned – eða “óskreyttur; blátt áfram” teflir fram kviknöktum konum sem körlum og skeytir saman samtímalist og undarlegum endurómi frá baroque tímabili miðalda.
Kviknaktar fyrirsæturnar eiga það allar sameiginlegt að falla ekki undir viðtekin gildi um fegurð; eru ólögulegar samkvæmt stöðlum nútímans, þykja með öðrum orðum fráhrindandi á mælikvarða nútímans. Engu að síður tekst Juliu að fanga þau á filmu í erótísku umverfi og umvefja þau hálfgerðum lostabjarma og um leið, sýna þau í sínu eigin skinni; fyllilega sátt við nekt sína og líkamslögun.
Í yfirlýsingu Juliu, sem finna má samhliða myndunum er þennan forvitnilega texta að finna:
“Gegnum undangengnar aldir þóttu þær konur sem bjuggu yfir bogadregnum línum afar eftirsóttar. “Grannar konur, með Twiggy og Barbie þar í fararbroddi, urðu ekki vinsælar fyrr en í kringum sjötta áratuginn. Sjálfhverf samfélagsgerð hefur þvingað jafnt fjölmiðla sem auglýsendur til viðhorfsbreytinga sem nú endurvarpar hinni fullkomnu konu út í heiminn sem tágrannri, knúinni áfram af átröskun og dýrkun á lýtaaðgerðum.”
“Með því að mynda fólk í yfirþyngd af báðum kynjum án klæða, vonast ég til að varpa þeirri hugmynd fram að enn sé einhver okkar að finna úti í hinum stóra heimi sem eru fyllilega sátt í eigin skinni og eru þeirrar skoðunar að það sé hin innri fegurð sem öllu skiptir en ekki stærð fatnaðar.”
“Seríunni er ætlað að umfaðma nakta fegurð mannslíkamans eins og hefur verið um aldaraðir … allt þar til fyrir einum fimmtíu árum. Ég mynda fólk sem er einstakt, náttúrulegt og auðvitað, afar kynþokkafullt. Það fannst mér sláandi þegar var að mynda seríuna hvað fyrirsæturnar voru þægilega afslappaðar gagnvart eigin nekt; hvað þeim fannst auðvelt að fækka klæðum fyrir myndavélina. Það fannst mér bera vott um einn mesta persónustyrk þeirra allra og sátt þeirra við eigin líkamslögun.”
Seríuna sjálfa má sjá í heild sinni HÉR en hún inniheldur alls tólf myndir.
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.