Hakkréttur með sætkartöflumús – Uppskrift

Grænmetishólfið er yfirfullt og þú ert búin að taka hakk úr frystinum. Þú ert nýkomin heim eftir langan vinnudag og vilt fá þér eitthvað gott að borða. Þér finnst það líka stór plús að það sé einfalt og nokkuð fljótlegt.Þig langar samt ekki að skella í lasagna eða spaghetti í hundraðasta skipti. Þá er þessi hakkréttur fullkominn fyrir þig og ljúffengur er hann!

 

Hakk

750 grömm nautahakk

1 venjulegur laukur

5-6 sveppir

1 hvítlauksrif

Rauð paprika

2 gulrætur

300 gr. ora maískorn

1 tsk kjötkraftur

½ tsk þurrkað timían

Smá salt og pipar

1 msk fínt spelt

1 dós niðursoðnir tómatar

 

Sætkartöflumús

1 stór sæt kartafla

1-2 tsk hvítlauksolía

½ gráðaostur

 

Aðferð

1. Afhýðið kartöfluna og sjóðið í potti.

2. Hitið pönnu og hellið hakkinu á hana þegar hún er orðin vel heit. Steikið þar til hakkið nær brúna litnum alveg og lækkið þá undir.

3. Skerið grænmeti og steikið allt saman á pönnu upp úr ólífuolíu í rúmar 10 mín.

4. Blandið grænmetinu við hakkið og hrærið saman. Leyfið að malla á vægum hita.

5. Bætið kjötkraftinum við ásamt salti, pipar, timían og spelti. Hrærið þessu öllu vel saman og steikið í 2-3 mínútur.

6. Hellið niðursoðnu tómötunum og maískorni út á pönnuna og blandið vel saman við allt. Lækkið undir á meðan þið ljúkið við músina.

7. Hellið vatninu af sætu kartöflunum og látið kartöflurnar í matvinnsluvél. Maukið í mús. Bætið svo við hvítlauksolíu og gráðaosti og mixið allt saman.

8. Dreifið úr hakkinu í botninn á eldföstu móti. Hellið sætkartöflumúsinni þar yfir og dreifið jafnt yfir.

9. Færið fatið í ofn og bakið við 170 gráður í 8-12 mínútur.

 

Berið fram með góðu salati og jafnvel blákornasnakki (blue corn chips).

 

SHARE