DORIS FILM, í samstarfi við Women in Film and Television (WIFT) í Noregi, Women in Film and Television (WIFT) á Íslandi, býður íslenskum og norskum konum til handritasamkeppni fyrir stuttmynd en verkefnið hlaut styrk úr Framkvæmdasjóði jafnréttismála.
Frestur til að senda inn tillögur er 1.maí næstkomandi 2014. Samkeppnin er opin öllum konum og er beðið er um 1 A4 síðu tillögu að stuttmyndahandriti. Fagnefnd velur síðan úr hugmyndum sem komast áfram og fara í gegnum þrjú þróunarstig þar til fimm handrit í hvoru landi eru tilbúin til framleiðslu. Allar myndirnar verða að vera með a.m.k eina konu í aðalhlutiverki.
Samkeppnin er nafnlaus í fyrstu umferð. Skila má gögnum á íslensku, norsku eða á ensku með því að senda tölvupóst á wift@wift.is.
Allar nánari upplýsingar má nálgast hjá verkefnastjóra á Íslandi Dögg Mósesdóttur, sími 77005777 eða á doggmo@yahoo.com.
Nánar um Doris Film
Dorisfilm verkefnið er aðlögun að sænsku verkefni sem hófst árið 1999 og ól af sér níu stuttmyndir og kennsluefni um kynjahlutföll í kvikmyndum. Í Svíþjóð komu inn 406 tillögur í keppnina sem fór þvert á það sem kvikmyndamiðstöð þar í landi hafði haldið fram; að konur bara skrifi ekki.
Markmiðið er að rannsaka hvernig sögur líta dagsins ljós þegar konur bera ábyrgð á öllum lykilhlutverkum í kvikmyndagerð og þegar konur eru í aðalhlutverki sem söguhetjur.
Verkefnaáætlun Dorisfilm
Verkefnið verður unnið jöfnum höndum á Íslandi og í Noregi. Reiknað er með að framleiða átta til tíu stuttmyndir auk heimildarmyndar þar sem fylgst verður með verkefninu. Stuttmyndirnar níu verða sýndar hver fyrir sig auk þess sem þær verða settar saman í kvikmynd í fullri lengd og sýndar í sjónvarpi, á hátíðum og í kvikmyndahúsum víðsvegar um heim og einnig á netinu. Reiknað er með að verkefnið taki að minnsta kosti þrjú ár.
Til viðbótar verður einnig framleitt kennsluefni sem er hugsað sem stuðningur við myndefnið. Markmiðið er að nýta kennsluefnið til að auka þekkingu á myndlæsi með kynjagleraugum á öllum skólastigum, með aðaláherslu á 10 – 12 ára nemendur í grunnskólum.