Guðný Pálsdóttir hannar mottumen sem hún selur til styrktar krabbameinsfélagsins. Þar sem það er mottumars fannst mér tilvalið að ná tali af henni til að ræða við hana um Mottumenið sem hefur vakið athygli mína. Mottumenið getum við konur keypt okkur og styrkt þannig gott málefni.
Hvernig kom það til að þú hannaðir Mottumenið?
Maður veit nú ekki alveg hvernig hlutirnar verða til í huga manns en ég hannaði Mottumenið haustið 2009 og var þá í námi á Listnámsbraut í Iðnskólanum í Hafnarfirði. Ég var í plast-áfanga í skólanum og þar sem ég var búin með öll skylduverkefnin í áfanganum fór ég að leika mér að búa til hvað sem mér datt í hug. Ég hafði náð mér í smábút af svörtu plexigleri og fékk þá hugmynd að skera úr því yfirvaraskegg og einglyrni. Ég sá fyrir mér að þetta gætu orðið skemmtileg hálsmen. Ég var býsna ánægð með útkomuna, setti skeggið og einglyrnið á keðju sem ég átti og gekk með þetta um hálsinn! Menin vöktu mikla lukku meðal vina minna og margir fengu að prófa þau, jafnt strákar sem stelpur. Einnig var mér bent á að hugmyndin félli vel að átakinu Mottumars sem Krabbameinsfélagið stendur fyrir á hverju ári. Ég var þó ekki alveg tilbúin í svo stórt verkefni þá og hafði sjálf í nógu að snúast við að útskrifast úr Iðnskólanum og vinna í möppu og umsókn í Listaháskóla Íslands.
En þú hefur þó ekki alveg gleymt menunum þínum ?!
Nei, ég gerði það ekki en tíminn leið og þegar ég var komin á annað ár í vöruhönnun við Listaháskólann ákvað ég að hefjast handa og hafði samband við Krabbameinsfélagið. Laila Sæunn Pétursdóttir markaðs- og fjáröflunarstjóri hjá Krabbameinsfélaginu hafði strax mikinn áhuga á verkefninu og svo fór að ég lét framleiða Mottumenin og skyldi helmingur ágóðans renna til félagsins.
Þú breyttir í raun ekki um útlit frá fyrstu menunum sem þú gerðir?
Nei, eiginlega ekki. Ég ákvað að hafa menin úr svörtu plexigleri eins og fyrstu menin voru og snillingarnir hjá Format voru meira en til í að aðstoða mig við framleiðsluna og „laser“skáru menin. Við settum menin á (svört) bönd og getur fólk þá ráðið hvar það staðsetur menið. Sumir vilja hafa það ofarlega og aðrir neðar. Tvær góðar vinkonur mínar, Ása Bryndís Gunnarsdóttir og Sigrún Sæmundsen sáu um útlit og hönnun á umbúðunum fyrir mig, báðar algjörir snillingar! Við ákváðum að hafa mynd af konu með menið þar sem Mottumenið er ein að ástæðum þess að ég set menið á markað að mig langar að aðstoða konur við að taka þátt í Mottumars átakinu. Það hefur þegar komið í ljós að konur vilja taka þátt í átakinu því að þær hafa tekið meninu mjög vel.
Segðu mér hvernig gekk með lokafráganginn.
Þegar ég var komin með allt í hendurnar- Format menn búnir að skera menin og umbúðirnar tilbúnar kallað ég saman nokkra vini mína heim til mín, eina helgi í febrúar og þar unnum við sleitulaust heila langa helgi við lokafrágang og að koma hálsmenunum í umbúðirnar. Þetta var mjög strembin en skemmtileg helgi og uppörvandi að fá svona mikla aðstoð.
Hvernig gekk svo að koma menunum í sölu?
Næsta mál á dagskrá var að hafa samband við nokkrar búðir sem vildu hafa menin í sölu og einnig hafði Krabbameinsfélagið þau í sölu í vefverslun sinni. Þetta gekk ótrúlega vel og seldust rúmlega 600stk. Ég var sérstaklega ánægð fyrir hönd Krabbameinsfélagsins enda rann helmingurinn af ágóðanum til þeirra og hefur vonandi komið að góðum notum.
Hvað er svo á döfinni hjá þér núna?
Ja, ég ákvað að bjóða menin aftur í ár. Ættingjar og vinir hafa aðstoðað mig mikið og án þeirra hefði ég ekki ráðið við að gera þetta núna. Ég er að ljúka námi mínu í Listaháskólanum og legg allt mitt í að vinna í lokaverkefninu fyrir útskriftarsýninguna. Ég er foreldrum mínum, ættingjum og vinum mjög þakklát fyrir alla hjálpina. Það er líka þakkarvert að svo margir skuli leggja mikið af mörkum í átakinu Mottumars. Allt þetta fólk vinnur hart að því að vekja athygli á krabbameini og afleiðingum þess og mér finnst gott að geta líka lagt lið.
Hún.is mun áfram fylgjast með hönnun Guðnýar og hlakkar til að sjá hvað næst kemur úr smiðju hennar.