Vel mótaðar augnabrúnir skerpa ekki einungis á andlitssvipnum – heldur skiptir litur þeirra einnig talsverðu máli. Augnabrúnirnar eru í raun framlenging á hárinu. Sé litur augnabrúna í ósamræmi við háralitinn, kemur líka ósamræmi í förðun.
.
Heitir tónar við heita tóna og kaldir tónar við kalda tóna
Færustu förðunarfræðingar heims segja að hlýjir hártónar eigi að fara saman við hlýjan lit á augnabrúnum; heitt við heitt og kalt við kalt. Á vefsíðu Vogue má finna skemmtilega umfjöllun um augnabrúnir og ákjósanlegan lit. Förðunarmeistarinn Kate Lee mælir þannig með Anastasia Tinted Brow Gel sem hún segir skemmtilega leið til að meta hvaða litatónn fer hörunds- og háralit hverrar konu.
.
Litað augnbrúnagel er frábært til að prófa ólíka litatóna
„Prófaðu þig áfram með gelinu og skerptu að lokum aðeins á tóninum með góðum augnbrúnalit”, segir Kate Lee. (Kate mælir rmeð Chanel Sculpting Eyebrow Pencil). „Allt áður en þú ákveður að bera fastan lit á augnabrúnirnar.”
„Smelltu svo af sjálfu og líttu í spegilinn. Vertu viss um að litatóninn fari þér vel áður en þú velur fastan lit.”
Hárgreiðslumeistarinn Aura Friedman segir þá að best sé að lita augnabrúnirnar á fjögurra vikna fresti og mælir með því að alltaf sé farið á stofu, heimalitun geti falið í sér óþarfa áhættu. Sjálf segir Aura litaða augnabrúnagelið sem við vísum til hér að ofan, geti líka þjónað sem hjálpartæki ef enginn tími gefst til að bóka tíma á stofu í tæka tíð.
.
Litur augnabrúna skiptir sköpum í allri andlitsförðun
Þetta segja þær Kate og Aura ágætar viðmiðunarreglur þegar velja eigi litatóna – allt frá því hvaða augnabrúnatónar skerpi á augnalitnum sjálfum og til þess hvaða tónar styrkja andlitsfallið – frá því að mýkja yfirlitið og til sterkra, voldugra brúna með aðlaðandi yfirbragð.
LJÓSHÆRÐAR:
Skarpar augnabrúnir í dekkri tónum fara ljóshærðum vel og geta „rammað” andlitið fallega inn. Dekkri augnabrúnir skerpa á augnalitnum og veita andlitinu sterkara svipmót.
Ef svartar augnabrúnir virðast of skarpar við ljósan háralitinn leggur Aura til að notast við djúpbrúna tóna eða færa sig jafnvel örlítið ofar á litaskalanum. Það sama á við um dökkhærðar sem velja að lýsa hárið örlítið – því þó augnabrúnirnar séu lýstar upp um einungis einn litatón – vermir það yfirbragðið til muna og andlitsumgjörðin fær á sig „hlýrri” blæ.
DÖKKHÆRÐAR:
Augnabrúnunum er ætlað að vera dekkri en sjálfur háraliturinn – þannig er því háttað frá náttúrunnar hendi. Því dekkri sem háraliturinn er, því kaldari og dekkri eiga augnabrúnirnar að vera. Þær sem vilja dekkja háralitinn og voru jafnvel ljóshærðar áður – ættu því að dekkja augnabrúnirnar samhliða háralitnum.
Aðeins þær sem eru teknar að eldast örlítið og leitast við að mýkja fínu línurnar sem óhjákvæmilega fylgja aldrinum ættu að leitast við að velja hlýrri tóna og beina þannig athyglinni frá grönnum augnabrúnum. Yfirplokkaðar augnabrúnir verða síður áberandi ef hlýr og mildur tónn verður fyrir valinu – sem fer vel við hörundslitinn.
RAUÐHÆRÐAR:
Ekki eru allar náttúrulega rauðhærðar konur með rauðhærðar augnabrúnir. Aura segir óþarfi að lita augnabrúnirnar rauðar þó rauður hártónn verði fyrir valinu – ef ætlunin er að velja koparleita hártóna fremur en djúprauða má þó hafa í huga að hlýr, ryðbrúnn tónn á augnabrúnirnar getur farið vel við hártóninn.
Svalur, djúprauður hártónn kallar aftur á móti á dekkri augnabrúnir og þannig ættu þær sem kjósa djúprauða tóna fyrir hárið að velja djúpan og hlýjan brúnan tón fyrir augnabrúnir.
SVARTHÆRÐAR:
Sælir eru einfaldir, segir máltækið og sama á við um svarthærðar – sem ættu að fylgja þeirri einföldu þumalfingursreglu að velja svartar augnabrúnir við svartan háralit. Hlýjir, djúpbrúnir tónar við svart hár gefa augnabrúnunum appelsínuleitan tón og yfirlitið getur orðið skrýtið og óaðlaðandi.
Aura mælir ekki með því að konur reyni að lita augnabrúnirnar heima – sér í lagi þær sem hafa ekki reynslu af háralitun – sérfræðingar á stofu séu mun hæfari til að sinna starfinu.
Ekki taka slíka áhættu – segir Aura að lokum og er að öllum líkindum að vísa til þeirrar staðreyndar að ekkert er leiðinlegra en klaufalegt tískuslys rétt áður en farið er út á lífið.
Tengdar greinar:
Förðun: Tara Brekkan kennir okkur nokkur trix og hvernig á að fá varir eins og Kylie Jenner
Hártískan: Fléttur og fallegar spennur
Stjörnur án farða – Myndir
Klara Egilson er íslenskur blaðamaður búsettur í Osló. Hún hefur gengt ritstörfum frá unga aldri og gaf út sína fyrstu smásögu sex ára að aldri: “Kartaflan sem fann alltaf vitlausa lykt” en hefur skrifað allar götur síðan og er ekki ókunn íslenskum fjölmiðlum. Hún er elsk á orð, fagra muni og umfram allt; fjölbreytileika mannlífsins. Klara gegnir í dag stöðu aðstoðarritstjóra HÚN.IS og tekur á ýmsu í umfjöllunum sínum.