Kelly Clarkson segist hafa þurft að treysta á þunglyndislyf til að hjálpa sér í gegnum erfiðan skilnað við barnsföður sinn, Brandon Blackstock. „Ég sat hjá sálfræðingnum mínum og gat ekki hætt að gráta og ég hafði þurft að hætta við allskonar plön því ég bara gat ekki hætt að gráta. Ég þurfti aðstoð og ég varð að leggja stoltið mitt til hliðar og öll mín vandamál tengd æskunni,“ sagði Kelly í viðtali í hlaðvarpinu Las Culturistas.
Kelly sagði þeim að hún hefði byrjað að taka þunglyndislyf og það hafi komið henni í gegnum erfiðasta tímann. „Ég gat ekki brosað „fyrir Ameríku“ lengur. Égvar ekki hamingjusöm og þurfti hjálp og ég held þetta sé það besta sem ég hefði getað gert. Ég hefði ekki komist í gegnum þetta án lyfjanna.“
„Ég veit ekki hvernig fólk kemst vanalega í gegnum svona og ég get ekki sagt að ég hafi gert þetta með mikilli sæmd,“ sagði Kelly og bætir við að stundum hafi hún grátið svo svakalega að „hún hafi ekki getað talað“ þegar hún var að átta sig á því að hjónabandið var ekki að ganga.