Hefur þú tekið afstöðu til líffæragjafar?

Í hverju er líffæragjöf fólgin?

Í líffæragjöf felst að líffæri (hjarta, lungu, lifur, nýru, nýru, bris) eru fjarlægð úr látinni manneskju og síðan grædd í sjúklinga sem þarfnast þeirra. Líffæri er unnt að nota úr allt að sjötugum einstaklingum. Í nýrnasjúka eru stundum grædd nýru úr heilbrigðum aðstandendum.

Hvers vegna ættir þú að taka afstöðu til líffæragjafar?

Þá vita ættingjar hug þinn um líffæragjöf
Komi líffæragjöf til greina þegar dauða ber að höndum spyrja læknar aðstandendur um afstöðu hins látna til líffæragjafar. Sé hún ekki þekkt kemur það í hlut nánustu ættingja að taka ákvörðun um líffæragjöf en það getur verið erfitt á sorgarstund.

Er unnt að staðfesta dauða með vissu?

Já. Þegar blóðrennsli til heilans stöðvast með öllu deyr heilinn (heiladauði). Öll starfsemi hans hættir og samkvæmt lögum er manneskjan þá látin. Langoftast deyja menn þannig að öndun hættir og hjartsláttur stöðvast og þar með blóðrennsli. Í fáeinum sjúklingum í öndunarvélarmeðferð getur orðið algert heiladrep án þess að hjartsláttur stöðvist strax. Þá er hægt að halda blóðrás og öndun gangandi um sinn. Dauðinn er þá staðfestur með taugaskoðun og öðrum rannsóknum. Stundum er gerð æðamyndataka af heilaæðum.

Hvenær er meðferð hætt?

Þega algert heiladrep hefur veið staðfest er manneskjan úrskurðuð látin. Þá er allri meðferð hætt. Ef nema á brott líffæri til ígræðslu er meðferð haldið áfram þar til þau hafa verið fjarlægð.

Þarfnast margir ígræðslulíffæra?

Á hverju ári þarfnast um það bil 10 sjúklingar hér á landi ígræðslu. Forsenda ígræðslu er að líffæri fáist frá nýlátnum. Ekki er unnt að nýta líffæri nema í litlu hluta dauðsfalla en hver líffæragjafi getur bjargað allt að sex mannslífum. Því er áríðandi að sem flestir séu fúsir til að gefa líffæri.

Hverjir þarfnast líffæraígræðslu?

Allir geta fengið sjúkdóma sem leiða til alvarlegra sjúkdóma í nýrum, hjarta, lifur, lungum og brisi. Fyrir börn með meðfædda sjúkdóma í nýrum, hjarta, lungum eða lifur getur ígræðsla verið hið eina sem bjargað getur lífi þeirra.

Hversu góður er árangurinn?

Yfirleitt er árangur góður. Margir lifa eðlilegu lífi með ígrædd líffæri. Þeir geta stundað vinnu og líkamsrækt. Konur með ígrædd líffæri geta eignast börn.

Hvar eru ígræðslur gerðar?

Íslendingar sem þarfnast líffæra úr látnu fólki fá þau nú ígrædd í Rigshospitalet í Kaupmannahöfn. Þangað fara þau ígræðslulíffæri sem gefin eru hérlendis. Þau eru hluti af þeim norræna líffærasjóði sem íslenskir sjúklingar geta sótt í.

Taktu ákvörðun!

Ræddu við þína nánustu um afstöðu til líffæragjafar. Fylltu út líffæragjafakort (kortið er hægt að nálgast í afgreiðslu embættisins, lyfjabúðum og einnig í afgreiðslum Tryggingastofnunar ríkisins víða um land og í móttökum Landspítala-háskólasjúkrahúss) og geymdu það með öðrum persónuskilríkjum þínum. Hver sem afstaða þín er kemur þú óskum þínum á framfæri og getur þá létt erfiðri ákvarðanatöku af ástvinum þínum.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE