Staldrar þú nokkurn tímann við og íhugar hverskonar orku þú sendir frá þér?
Ég trúi því að allar manneskjur séu orka og að við sendum orkuna okkar frá okkur yfir til annara. Þess vegna reyni ég að vanda mig í því að velja viðhorf mín, vanda mig að hafa stjórn á skapi mínu og að sleppa tökunum á öðru fólki. Sem sagt ekki stjórna öðrum eða skipta mér yfirhöfuð að því hvað aðrir gera eða kjósa í lífinu.
Finnst einfaldast að leyfa öðrum að vera og gera alveg án minnar íhlutunnar, já og án minnar stjórnsemi. Það er nefnilega stjórnsemi að skipta sér af því hvað annað fullorðið fólk gerir og segir hvort sem það er í raunveruleikanum eða á samfélagsmiðlum. Ég nefni samfélagsmiðla af því þeir eru orðnir svo stór partur af lífi fólks og þar má svo oft sjá stjórnsemina í essinu sínu!
Fyrir mörgum árum síðan var mér tamt að troða mér og mínum skoðunum inn í líf annarra. Jebb, alveg frá því að ráðleggja ókunnugu fólki sem var að versla í sakleysi sínu í Bónus um val á tannbursta (alveg án þess að það bæði um sérfræðiálit frá mér) upp í það að slíta samböndum fyrir vinkonur mínar eða velja nám fyrir náungann.
Þvílík geggjun hvað stjórnsemi er hrikaleg. Í alvöru, ég sá ekki neitt athugavert við það að hafa vit fyrir öðrum. Enda leitaði fólk mikið til mín og ég gjarnan nefnd sálfræðingurinn í hópnum. Fannst eiginlega fólkið sem ekki hlustaði á mín góðu ráð vera hálfvitar, já sem höfðu ekki nægilegt vit milli eyrnana til þess að hlusta á visku mína hvað þá að fara eftir henni.
Vá hvað lífið er miklu einfaldara í dag eftir að ég lærði á eigin stjórnsemi og fattaði hvað er mín ábyrgð og hvað er ekki mín ábyrgð. Svo ég tali nú ekki um þegar ég horfðist í augu við hversu skaðleg stjórnsemi er, hvað var ég að þykjast vita hvað er öðrum fyrir bestu!
Akkúrat, hver og einn þarf að fá að þroskast og finna sína leið án stjórnsemi frá náunganum!
Ég ætla ekki að segja ykkur hvað börnin mín eru heppin að ég var svo lánsöm að vinna með mig og taka á stjórnsemi minni sem og öðrum brestum. Júbb þau fá bara að þroskast sem fullorðið fólk alveg án minnar stjórnunar. Auðvitað er ég til staðar þegar þau þurfa og ég get en þau velja sinn veg. Eina sem ég geri er að hvetja þau til þess að fylgja hjartanu og skapa sér hamingjuríkt líf.
Það er ekki auðvelt að horfa á fólkið sitt gera einhverjar vitleysur en það er þeirra þroski og ekki mitt að vera þroskaþjófur.
Lifum og leyfum öðrum að lifa, já og þroskast.
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!