Heimalagað tortellini – Æðislega gott

Það er ekki eins erfitt og maður gæti haldið að búa til tortellini. Þegar maður er kominn upp á lag með það kaupir maður ekki aftur tilbúið pasta. Við fundum þessa æðislegu uppskrift. Pastað er einstaklega bragðgott og það er vel hægt að dunda sér við að búa þetta til sjálfur.

Efni:

Í deigið

  • 2 bollar hveiti
  • salt
  • 3 egg
  • vatn

Fyllingin

  • 1/2 bolli kotasæla
  • 2-1/2 msk. mjúkur geitarostur
  • 2 msk. nýtt basilíkum, saxað
  • salt og pipar

1

Aðferð

Látið hrærivélina hnoða hveiti, salt og eggin í kúlu. Látið standa í hálftíma.

 

Blandið nú saman öllu efninu í fyllinguna, kælið þar til á að nota hana.

2

Fletjið deigið út

Ef þið eigið tæki við hrærivélina til að fletja út er auðvelt að nota það. Annars notar maður bara kökukeflið og fletur deigið út eins þunnt og manni finnst þægilegt. Gott að hafa það þunnt!  Þá er næst að skera út hringina (best að nota smákökumót, u.þ.b. 7cm í þvermál).

 

Og þá er fylling látin í hvern hring

 

 

og kökunni lokað. Vætið fingurna í vatni og þrýstið brúnunum saman svo að þær haldist lokaðar.

 

Loks er kakan brotin varlega saman (sjá mynd), og endarnir látnir mætast. Gott að nota sleifarskaft til að bretta endana yfir.

 

Þá er að elda pastað

Látið suðuna koma upp í stórum potti. Setjið tortellínið og saltið i pottinn og látið sjóða þar til það flýtur uppi, u.þ.b. 2-3 mín. Sigtið vatnið frá og njótið vel!

SHARE