Heimatilbúið jólaskraut

Ég verð að viðurkenna dálítið fyrir ykkur, eiginlega dálítið stórt. Reyndar það stórt að ég var efins um að láta þetta hingað inn. Ég nefnilega endurnýtti ekki neitt þegar ég bjó þetta til og þetta kostaði mig nærðum því 800 kr. Já, ég veit, ég mun sækja um gjaldþrot á morgun.

Þegar ég sá þessa plast sælgætisstafi þá átti ég mjög erfitt með að öskra ekki upp yfir mig af gleði. En ég náði að hemja mig og keypti bara 3 pakka (sko, í þessari ferð, ég lofa ekki að ég muni ekki fara aftur og kaupa fleiri).

Ég byrjaði á því að setja límbyssuna mína í samband og á meðan hún var að hitna þá klippti ég alla spottana af stöfunum. Svo límdi ég tvo og tvo stafi saman með því að láta lím rétt á endana þannig að þeir mynduðu hjörtu.

Svo límdi ég hjörtun saman þannig að þau mynduðu hring. 3 pakkar, 15 stafir, pössuðu akkurat. Ég keypti svo þetta jólaskraut sem mér fannst fullkomið til að fela miðjuna, ég átti þessa skrautsteina sem mér fannst vera fullkomnir til að fela samskeytin á milli stafanna. Ég þræddi svo borða í gegnum 2 af götunum (þar sem spottarnir voru) og límdi borðann fastan á bakliðinni (til að festa hann).

Svo var það erfiða spurningin, hvar á að hengja upp nýja jólaskrautið þannig að það njóti sín sem best?

SHARE