Framan af getur sumarið 2014 á Íslandi ekki talist til þess sólríkasta í sögunni. En ef sólinni skyldi detta í hug að sýna sig, eins og virðist vera raunin í dag, gæti verið gott að hafa sólarvörn til taks. Vandamálið með flestar sólarvarnir er að þær innihalda ekkert sérstaklega góð efni, sem þeir með viðkvæma húð þola oft ílla. Þannig að þessi uppskrift er fyrir þá og hina sem vilja hugsa vel um húðina sína. Þar sem engin rotvarnarefni eru notuð mæli ég með að þið útbúið lítið magn í einu og geymið á köldum stað því sólarvörnin hefur takmarkað geymsluþol. Virka efnið sem ver húðina er zinkið. Með því að nota 5% af zinki fáið þið styrkleika á bilinu 2-5, 10% zink gefur 6-11, 15% zink gefur 12-19 og 20% zink gefur styrkleikan 20.
Fyrir þá sem vilja fræðast meira um þessa tilteknu sólarvörn skoðið heimasíðu Scratchmommy HÉR.
Innihald:
• 90g lífræn kókosolía
• 65g lífræn jojoba olía eða almond olía eða apríkósuolía. Hægt að lesa sig til um þessar olíur HÉR.
• 28.5g Bývax
• 27.5g lífrænt Shea Butter, t.d. SVONA
• 40g Zink Oxíð, t.d. SVONA
• ½ tsk E vitamin, t.d. SVONA
Áhöld:
• Pottur og tvær glerskálar
• Vigt sem mælir nákvæmt
• Gríma fyrir öndunarfærin, ekki er gott að anda að sér zink oxíðinu.
• Litlar glerkrukkur
Aðferð:
• Vigtið öll innihaldsefnin nema zinkoxíðið og setjið í aðra glerskálina.
• Bræðið efnin með því að setja skálina ofan í pott með heitu vatni, hrærið í á meðan.
• Þegar allt hefur bráðnað hellið varlega innihaldinu í aðra glerskál.
• Þvoið og þurrkið glerskálina vel áður en þið mælið zinkið.
• Bætið zinkinu síðan varlega útí glerskálina með olíunum og hrærið vel saman þangað til zinkið hefur samlagast.
• Því næst hellið þið sólarvörninnni í það ílát sem þið ætlið að hafa hana í eins og t.d. glerkrukkur. Passið bara að vera búin að sótthreinsa þær áður með því að dýfa ofan í soðið vatn.
• Látið kólna áður en notað er.
Þóra er keramikhönnuður og starfar sem slíkur á vinnustofu sinni í Hafnarfirði ásamt pistlaskrifum og kennslu. Þóra reynir að tileinka sér umhverfisvæna mannasiði á sem flestum sviðum og notar t.d. sem náttúrulegust hráefni í hönnun sína. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima og ytra ásamt því að hafa komið að rekstri tengdum heilsu og hönnun.