Þátttakendur í sænskum keppnishópi í Suður Ameríku rákust á illa farinn, lúsugan og heimilislausan rakka í miðjum leiðangri sem átti eftir að hafa afdrifarík áhrif á líf þeirra allra.
Svíarnir voru staddir í matarpásu, örmagnaðir og skítugir upp fyrir haus á miðri göngu um regnskógarsvæði Amazon-skógarins í Ekvador, þegar þeir tóku eftir hundinum þar sem hann lá illa hirtur og hungraður í götunni.
Einn þátttakenda, Mikael Lindnord, kenndi í brjóst um hundinn og freistaðist til að gefa vannærða dýrinu kjötbollu áður en hópurinn hélt áleiðis. Kjötbollan reyndist örlagarík því hundurinn var sem límdur við Mikael frá þeirri stundu.
Erfiðlega gekk að skilja hundinn eftir þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir en þátttakendurnir óttuðust að öryggi hundsins væri ekki fyllilega tryggt ef þeir tækju hann með sér.
Röð atburða leiddu að lokum að þeirri niðurstöðu að hópurinn ákvað að bjarga hundinum og bæta honum við í keppnisteymið. Félagarnir ákváðu upp frá því að kalla hundinn Arthur og Mikael Lindnord tók þá ákvörðun á endanum um að ættleiða hundinn og í lok leiðangursins fara með hann alla leiðina til Svíþjóðar þar sem hann nú býr.
„Ég kom til Ekvador til þess að vinna heimsmeistarakeppni. Í staðinn eignaðist ég nýjan vin fyrir lífstíð,“ segir Mikael í viðtali við sænska blaðið Aftonbladet á dögunum.
Arthur tók fullan þátt á lokaspretti keppninnar, sem ber heitið Adventure Racing World Championship, en hann synti með hópnum yfir ár, hoppaði upp og niður hóla og hæðir og tróð slóðina ásamt hópnum í gegnum leðju og mýri.
Fimmti félaginn í sænska hópnum virtist njóta félagsskaparins og tók þátt í ferðalaginu um fjöll og firnindi.
Eftir tæpa viku með Arthur í för ákvað hópurinn að gera hlé á fyrirætlunum sínum og fara með dýrið til dýralæknis. Það var á þeim tímapunkti sem Mikael segist hafa áttað sig á því að hann gæti ekki sagt skilið við hundinn. Hann vildi vera viss um að hann gæti ættleitt hundinn og að hann væri nógu heilsuhraustur til að geta farið úr landi, alla leiðina til Svíþjóðar.
Hann segist hafa haft samband við sænska landbúnaðarráðuneytið og hent inn umsókn um leyfi til þess að taka Arthur með heim til Svíþjóðar.
Eftir nokkra taugatrekkta daga þrungna af óvissu varð loks ljóst að Arthur var heimilt að hefja nýtt líf með húsbónda sínum í Svíaríki.
Þeir félagarnir hafa verið óaðskiljanlegir síðan.
Hér að neðan fylgja ljósmyndir frá ferðalaginu
„Ég fór til Ecuador til þess að vinna heimsmeistarakeppni. Í staðinn eignaðist ég alveg nýjan vin.“