Hjónin Kip og Nicole Macy frá San Francisco voru dæmd til fjögurra og hálfs árs fangelsisvistar og nefnd “leigusalar frá helvíti” fyrir að ofsækja leigjendur sína.
“Þetta fólk hagaði sér þannig að það sem það tók upp á var líkast því að það væri úr hryllingsmynd“ sagði dómarinn þegar hann kvað upp dóminn.
Mál þetta hófst árið 2005 þegar hjónin keyptu fjölbýlishús og voru leigjendur í fimm íbúðum. Hjónin vildu leigjendurna burt en allir höfðu þeir löglegan leigusamning og fóru ekki. Nú fóru hjónin að sýna mikið hugmyndaflug til að hrella leigjendur og brjóta á þeim. Þau brutust inn í íbúðir, stálu peningum og eyðilögðu eignir fólksins, þau fölsuðu skjöl til lögfræðinga um leigusamninga, sátu fyrir leigjendum sínum og sendu tölvupósta og hótuðu að ræna börnum þeirra og misþyrma þeim. Þau söguðu í sundur burðarbita í gólfi einnar íbúðarinnar og voru viss um að íbúðin yrði talin hættuleg og þá yrði fólkið að fara. Samskiptin hörðnuðu og eiginmaðurinn ógnaði húsverðinum með byssu, skipti um allar hurðalæsingar, sendi morðhótanir, réðst á einn af leigjendunum og rifbeinsbraut hann og fleira álíka þokkalegt gerðu þau fólkinu sem leigði þessar íbúðir.
Hjónin voru handtekin í apríl 2008 en fengu að ganga laus gegn hálfrar milljón dollara tryggingu. Þau flúðu land.
Þau skrifuðu blogg um málið þar sem þau sögðu að þau hefðu ekki fjármagn til að halda uppi málsvörn fyrir sig. Dómstólarnir væu ekki ábyrgir og þess vegna hefðu þau orðið að koma sér burt.
Þau náðust á Ítalíu í fyrra og aftur var réttað yfir þeim í Bandaríkjunum. Þetta skiptið var tryggingargjaldið tvær milljónir dala fyrir hvort þeirra.
Dómarinn sagði í þessu sambandi að fólk gæti ekki flúið afleiðingar gerða sinna og hjónin yrðu að svara fyrir glæpi sína.
Lögfræðingur hjónanna sagði að líklegt væri að þau fengju einhvern dóm og undirstrikaði það bara hve lög um réttindi og skyldur leigjenda og leigusala í San Fransisco væru meingölluð.