Hér er ég!

Klukkan var orðin rúmlega hálf eitt þegar að ég loksins náði að svæfa yngri dóttur mína.
Undir venjulegum kringumstæðum eru báðar skotturnar sofnaðar um eða upp úr átta á kvöldin.
Núna er ég hinsvegar bara með hana eina, litlu 9 mánaða skessuna mína af því eldra dýrið skrapp norður til ömmu sinnar og afa.

Í þann tíma sem að eldra barnið hefur ekki verið heima hefur það yngra hreinlega neitað að sofa. Hún hvorki sofnar á sínum venjulega háttatíma né sefur vel yfir nóttina – það eitt og sér er ekki að vinna neitt rosalega vel með consertaleysi mömmunnar (conserta = töfralyf fyrir sumt fólk með ADHD, Mamman= ég)

 

Gærkvöldið var ,,frábært” barnið barðist sem aldrei fyrr, neitaði að sofna og ætlaði með engu móti að leyfa mér að sigra (ég sver það, á sama augnabliki og ég setti þennan punkt þarna þá ældi Tætibuska yfir sig alla og ég þurfti að stökkva til og þrífa upp eftir hana og svo hana sjálfa.. hún hafði fundið ogguponsu bréf og reynt að borða það með þeim afleiðingum að hún ældi yfir allt.. Jájá Anna Karen, endilega farðu að skrifa pistla.. þú þarft ekkert að vera með augun límd á afkvæmum þínum hverja einustu sekúndu á hverjum einasta degi til þess að halda í þeim lífinu… já eða taktu betur til)

Allavega.. já! Hún barðist sem aldrei fyrr og neitaði að leyfa mér að vinna þetta skiptið. Eftir þriðju tilraunina til þess að svæfa hana leyfði ég henni bara að vinna, fór með hana fram og hugsaði með mér að ég færi bara inn um leið og hún færi að sýna þreytumerki.

Þegar inn var komið, rétt fyrir miðnætti, tók við óþarflega mikið af hnoði og flóttatilraunum hjá litla skaðræðinu sem er ekki enn búið að ná tökunum á skriði og brölti. Hún snéri sér því í hringi og sparkaði og lamdi öskrandi. Á endanum náði ég henni þó í ró. Það gerði ég með því að halda henni þétt upp að mér, raula lög og slá taktinn með fingrunum létt á bossann á henni.

Það eitt og sér virkaði mjög vel, nema fyrir þann part að svefnlausa, Adhd skrímslið hún ég mundi ekki eitt einasta lag né texta og í hvert einasta skipti sem  ég ,,söng” sömu laglínuna í sama laginu-

,,Undir háu hamrabergi hmmhmmhmmmm hmm lítil rós
hmmhmmhmmmhmhmhmhmmmhmm
dudduruu og hmmhmm ljós”

-varð ég meira og meira pirruð yfir því að muna ekki það sem að ég reyndi að rifja upp.

Eftir góðar 10 mínútur af þessu góli sá ég, mér til mikillar gleði að barnið var loksins sofnað, eða það hélt ég allavega.
Þannig að ég reyndi mitt besta til þess að laumast fram, þar sem að ég var í þokkabót komin með nettan skitusting eftir að hafa beðið eftir Manna litla heim úr vinnunni allt kvöldið svo að ég gæti átt notalegt ,,me time” á postulíninu.

Ég hætti að góla og slá taktinn, hélt inní mér andanum og dró svo höndina að mér, en á sama augnabliki gal opnuðust risastóru bláu augun og störðu svo djúpt inn í sál mína að ég missti næstum saur, skeifan myndaðist hægt en örugglega og hún var við það að fara að öskra á mig þegar að ég hlammaði mér í stellingar og byrjaði að góla það fyrsta sem að mér datt í hug.

,,ER ÉG KEM HEIM Í BÚÐARDAL..”

Með tilheyrandi látum og hröðum takti.
Og þar með var barnið glaðvaknað og ég þurfti að taka slaginn í 5. skiptið það kvöldið.

Þetta er lífið mitt, þetta lifi ég fyrir og þetta er akkúrat það sem að ég hugsaði mér að foreldrahlutverkið væri þegar að ég var barnlaus.

Eða alls ekki!

Þetta er það sem að fólk segir þér EKKI þegar að þú ert barnlaus, þú fréttir ekkert af því að í bónus við svefnleysið og slitin sem að fylgja þessum genapollum sem kallast börn, sé það uppáhalds tími dagsins hjá mömmunni þegar að hún fær að kúka í friði, með læst að sér og jafnvel einn kaldan með sér!

Aldrei hefði mér dottið það í hug að þetta móment á daginn, þegar að Manni litli mætir heim og ég get hlaupið inn á klósett væri bara uppáhalds mómentið mitt! (aðallega á erfiðum dögum, en samt eiginlega bara alltaf!)

Litla barnlausa Anna Karen horfði á litlu genapollana hjá öllum og hugsaði ,,vá, hversu næs.. þetta verður gaman þegar að ég er búin að mennta mig aðeins og komin í gott samba…” BLÚBBS! -> (lesist með auglýsingarödd Björgvins Halldórsonar) ,,þú hefur verið valin til þess að verða ólétt eftir fyrsta skiptið sem þú svafst hjá Manna Litla, gangi þér vel, fokk jú og HAHA”!!
– Og þarna stóð ég, búin að eyða 3500 krónum í sprautuna nokkrum vikum áður og allt í einu með barn á leiðinni.. EFTIR FYRSTA SKIPTIÐ SEM AÐ ÉG SVAF HJÁ MANNA!!

Litla 18 ára stelpan sem að ætlaði bara að fá sér smá gott í kroppinn fékk því þarna með helvíti stóran pakka aukalega í fangið, íbúð, bíl, hring á fingur og tvö börn með tæplega 19 mánaða millibili.

Meðgangan var því miður ekki lengri en bara örfáar vikur, en sambandið okkar Manna varð útaf þessu töluvert lengra en það átti að vera til að byrja með (og still going strong).

Sex mánuðum síðar vorum við flutt inn saman og að rífast þegar að ég hleyp inn á bað og æli.
Sama dag hreinsuðum við rekkana í apótekinu í Árbæ af óléttuprófum sem að komu öll jákvæð eftir þvingaðar hlandbunur í massavís.

Ég var Ólétt aftur.. samt á pillunni (100 rokkstig á þessar blessuðu getnaðarvarnir!!)

Við hættum að rífast, grétum, panikkuðum, hlógum og panikkuðum ennþá meira.
Nokkrum dögum síðar fórum við í snemmsónar til þess eins að fá að heyra að ég væri gengin tæpar SEX vikur!!
Lengsta
Meðganga
EVER!
..Eða það hélt ég, þar til að ég komst að því að ég væri ólétt á 4. viku með Tætibusku..

Argintæta kom í heiminn á settum degi, 12. júní 2015 klukkan 16:20.
Litlar 11,5 merkur og 49 cm.
Meðgangan hafði gengið ofboðslega illa og mér fannst ég hafa verið ólétt í 3 ár.
Ég ældi allan tímann, ég fékk í grindina og ég var með svo mikinn bjúg að ég hélt að ég myndi springa..
Fæðingin gekk hinsvegar ofboðslega vel og hratt fyrir sig og dagarnir eftir á mjög vel líka.

Tæpum 19 mánuðum síðar pungaði ég út barni númer tvö.

Hún Tóta tætibuska fæddist okkur þann 19. janúar 2017 á viku 38. Hún var aðeins 10,5 mörk og 45 cm. Meðgangan hennar var horror! Burt séð frá ógleðinni sem varði í 25 vikur fékk ég svo mikla grindagliðnun að ég þurfti að notast við hjólastól. Fæðingin gekk samt mjög hratt og vel og dagarnir eftir á líka.

Rétt áður en að hún fæddist opnaði ég snapchat aðgang þar sem að ég sýndi frá mínu daglega lífi og hamaðist við að reyna að ná krakkanum út sjálf áður en að ég færi í gangsetningu og þar með fann ég fullkomna starfið mitt – meira um það síðar.

 

Núna í desember verða liðin næstum því 4 ár frá ,,one night stand-inu” okkar Manna litla.
En hann Manni litli heitir í rauninni Ottó, er fæddur árið 1981 (stundum 1891, það fer eftir því hvernig liggur á honum) og er líka, eins og ég úr Öxarfirði (Ásbyrgi? Kópasker? ugh.. googlaðu það bara)
Hann starfar sem kvikmyndagerðarmaður og vinnur því mjög ó-fjölskylduvæna (já það er orð) vinnutíma.

Argintæta heitir í raun Heba Lind og er tveggja ára skopparabolti sem að er að taka gelgjuna og terrible two dæmið á annað level. = Vægast sagt handfylli!

Tóta Tætibuska heitir í raun Hrefna Þórunn og er 9 mánaða bolti sem að ég held að ég hefði þurft að ganga með í svona hálft ár í viðbót við 38 vikurnar. Hún nefnilega heldur að eini staðurinn sem að hægt sé að vera á, sé fangið á mér.

 

Ég heiti Anna Karen og ég er 22 ára gömul, einstaklega bitur móðir í Breiðholtinu, Mammaspamma, getnaðarvörn, ADHD skólabókadæmi, unnusta, vinkona og síðast en ekki síst – nýr penni á Hun.is!
Ég hlakka til komandi tíma, þar sem að ég mun gera mitt allra besta við að setja inn nýja pistla um subbulegu hlið foreldrahlutverksins, fyndnar sögur og allskonar skemmtilegheit.

SHARE