Hildur Lillendahl er umdeild í þjóðfélaginu en hún er ekki vön að stitja á skoðunum sínum. Sumir eru hjartanlega sammála henni en öðrum blöskrar.
Hún hefur lengi barist fyrir jafnrétti á Íslandi og vakið mikla athygli undanfarið ár. Viðbrögð fólks við skrifum hennar hafa verið af ýmsum toga og fólk virðist annaðhvort hata hana eða elska.
Hildur er gott dæmi um að við ættum ekki að mynda okkur skoðun á fólki í gegnum fjölmiðla eða netið. Þessi ákveðna kona er bráðfyndin, með húmorinn í lagi en það er líklega margir sem fatta ekki húmor hennar sem skín oft á tíðum í gegn í annars alvarlegum baráttumálum.
Fullt nafn: Hildur Lilliendahl Viggósdóttir
Aldur: 31 árs
Hjúskaparstaða: Gift.
Atvinna: Verkefnastjóri hjá Reykjavíkurborg
Hver var fyrsta atvinna þín?
Ég vann við ræstingar meðfram unglingavinnunni í 8. bekk.
Mannstu eftir einhverju ákveðnu tískuslysi frá unglingsárum þínum?
Já, útvíðu hlébarðabuxurnar sem ég notaði við eftirlíkingabuffaloskóna mína voru eitthvað sem ég vildi að ég myndi ekki eftir.
Áttu leyndarmál sem mun fylgja þér til grafar?
Nei, ég kann ekki að eiga leyndarmál.
Hefurðu farið hundóánægð/ur úr klippingu og sagt ekki neitt við klipparann?
Já, þegar Fausto á Hverfisgötu ákvað að prófa að setja tígrisdýrastrípur í mig. Það tók mig svona viku að fatta hvað það var ógeðslega ljótt.
Kíkirðu í baðskápana hjá fólki sem þú ert í heimsókn hjá?
Ég held að ég myndi alveg gera það ef mig langaði af einhverjum ástæðum til þess. En ég man samt ekki í svipinn eftir að hafa gert það.
Vandræðalegasta atvik sem þú hefur lent í?
Úff. Ég datt nú út úr strætó á Hlemmi 17 ára gömul í hlébarðabuxunum og örugglega með tígrisdýrahárið. Því gleymi ég aldrei. Og þegar ég var í 9. bekk hringdi ég í strák sem ég var skotin í og þegar við vorum að kveðjast sagði hann takk fyrir að hringja og ég sagði takk sömuleiðis. Þá var ég alveg til í að deyja úr skömm.
Vefsíðan sem þú skoðar oftast?
Í réttri röð, samkvæmt upphafssíðunni á vafranum mínum:
Facebook
DV
Twitter
Gmail
Þjóðskrá
Vísir
Já.is
knúz.is
Seinasta sms sem þú fékkst?
“Eva María fyrir utan Háskólatorg. Hún er á hjóli.”
Hundur eða köttur?
Köttur. Mér er frekar illa við hunda.
Ertu ástfangin/n?
Ó, já. Bæði af manninum mínum, börnunum mínum og sjálfri mér.
Hefurðu brotið lög?
Já, helling af þeim.
Hefurðu grátið í brúðkaupi?
Já, ég tárast oftast smá.
Hefurðu stolið einhverju?
Já.
Ef þú gætir breytt einu úr fortíðinni hvað væri það?
Ég hef engan áhuga á að breyta fortíðinni minni. Hún hefur mótað mig og ég er sátt við sjálfa mig.
Hvernig sérðu þig fyrir þér þegar þú ert komin á eftirlaun?
Mig langar rosalega að ímynda mér að ég verði í þakíbúð einhversstaðar í París að vera bóhem og sérvitringur sem sötrar líkjöra og reykir vindla eða pípu. En sennilega verð ég nær Breiðholtinu eða Danska barnum að drekka bjór, reykja Marlboro og lesa og skrifa meðan heilsan leyfir.
Við fengum að birta mynd af Hildi frá því hún var 16 ára í frægu hlébarðabuxunum með hárið í stíl ;D