Hinsegin kórinn og Pink Singers halda tónleika í Gamla bíói í kvöld

Hinsegin kórinn og Pink Singers syngja saman á Hinsegin dögum
  • Erlendur hinsegin kór heimsækir Ísland í fyrsta sinn

  • Fjölbreytt og skemmtileg efnisskrá tveggja hinsegin kóra í Gamla bíói í kvöld
Hinsegin kórinn og Pinks Singers halda sameiginlega tónleika í kvöld, föstudaginn 9. ágúst. Tónleikarnir fara fram í Gamla bíói og hefjast kl. 18:30. Kórarnir komu fram saman á opnunarhátíð Hinsegin daga sem haldin var í Hörpu í gærkvöldi en halda nú sína fyrstu sameiginlegu tónleika.
Efnisskrá tónleikanna er fjölbreytt og skemmtileg. Dagskráin samanstendur af íslenskum og erlendum lögum, nýjum og gömlum svo allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.

Hinsegin kórinnvar stofnaður í Reykjavík síðsumars árið 2011 og hefur síðan þá komið víða fram og getið sér gott orð. Árið 2012 lét kórinn mikið til sín taka, hélt meðal annars ferna sjálfstæða tónleika en kom auk þess fram á Faroe Pride í Færeyjum og Hinsegin dögum í Reykjavík og víðar. Í maímánuði hélt kórinn vel sótta vortónleika í tónlistarhúsinu Hörpu.

The Pink Singers er breskur hinsegin kór frá London sem starfað hefur frá árinu 1983. Á undanförnum árum hefur kórinn ferðast mikið og heimsótt hinsegin daga vítt og breitt. Kórinn er nú kominn til Reykjavíkur til að sækja Hinsegin daga og eru félagar hér á landi sem gestis hins íslenska Hinsegin kórs.

Þetta er í fyrsta sinn sem erlendur hinsegin kór heimsækir Ísland. “Það er okkur mikill heiður að fá að taka á móti bræðrum okkar og sytrum frá London og við hlökkum mikið til að syngja og gleðjast saman í Gamla bíói í kvöld” segir Gunnlaugur Bragi, formaður Hinsegin kórsins. Báðir kórarnir leggja áherslu á fjölbreytt lagaval og líflega framkomu svo gera má ráð fyrir miklu fjöri á tónleikunum.

Enn er hægt að tryggja sér miða á forsöluverði hjá félögum í Hinsegin kórnum og í Kaupfélagi Hinsegin daga í IÐU. Verð í forsölu er 2.400 kr. en við inngang á tónleikastað í kvöld kostar miðinn 2.900 kr.

SHARE