Hjónabandsörðugleikar eftir 5-9 ár

Hjónabandsörðugleikar eftir 5-9 ár – ef þeim leiðist eða hafa gleymt hvort öðru Margt getur valdið því að hriktir í stoðum hjónabandsins á þessu tímabili. Nokkrar dæmigerðar ástæður eru þess að hjónaband fari í upplausn eftir 5-9 ára sambúð.

Ýmist er fólk allt of önnum kafið til að sinna hjónabandinu eða því leiðist.

Það er hægt að svæfa hjónabandið svefninum langa. Fólk er að farast úr leiðindum vegna andlegrar og tilfinningalegrar vanrækslu. Fólk getur farið út að borða en snæðir, situr saman og þegir í fleiri klukkutíma vegna þess, að það hefur ekkert að segja.

Nú eru þau örugglega gift, hljómar illgirnislega. Þau eru orðin uppiskroppa með umræðuefni. Réttu mér saltið. Hver ætlar að renna á könnuna? Hvað er á skjánum?er það, sem þau hafa að segja hvort við annað. Hvað á ég eiginlega að segja við hana, við erum búin að vera gift í 8 ár og þekkjumst út og inn? Annað kom reyndar á daginn hérna hjá mér, þegar við fórum að kryfja málin í viðtölum.

Leiði er ekki aðeins einn af verstu óvinum hjónabandsins, heldur einnig einstaklinganna.

Við getum eignast börn og skilið af eintómum leiðindum – það gerist þá a.m.k eitthvað á meðan hjá manni. Fólk getur lagst í drykkjusýki eða beinlínis veikst, reynt sjálfsvíg eða leiðst út í glæpi (t.d. unglingar, sem fá útrás við að stela bílum eða mótorhjólum). Ef manni leiðist, virðist lífið tilgangslaust og tómt, hringekja, sem snýst endalaust.

Ég er hundleið á að þurfa alltaf að taka frumkvæðið, ef við eigum að gera eitthvað hér á heimilinu.

Maðurinn minn stingur aldrei upp á neinu, hljómar kunnuglega. Eða Konan mín er alltaf svo þreytt. Hún vill helst bara vera heima. Hvers vegna er konan svona þreytt? Er hún veik? Er hún ofhlaðin vinnu? Eða er hún með erfiðan vinnutíma? Þetta fer í skapið á fólki, minnkar umburðarlyndið, þá er stutt í æsing og þetta bitnar á heimilislífinu.

Hið gagnstæða getur líka gerst ef karlinn hefur ekki aflað sér þeirrar menntunar eða atvinnu, sem hugur hans stóð til og hann verður að sætta sig við, að hafa ekki náð þeim markmiðum í lífinu, sem hann dreymdi um fyrir tíu árum. Hann reynir ef til vill að bæta sér þetta upp með aukavinnu til að láta drauminn um eigið einbýlishús rætast, eða fara í nám á kvöldin, sem getur verið mikið álag bæði á hann sjálfan og fjölskylduna og krefst mikillar þolinmæði og umburðarlyndis af allri fjölskyldunni.

Karlinum getur fundist hann vera vinnudýr, sem bara borgar brúsann, en sé konunni og börnunum sem ókunnugur. Konan hefur hugsanlega borið alla ábyrgð og stjórn á heimilinu og börnunum, og honum finnst hann vera sem gestur á sínu eigin heimili, þegar hann loks kemst þangað.

Vera má að fólk hafi eignast þau veraldlegu gæði, sem það langaði í, og sameiginlegu markmiði er náð um að eignast bíl, hugsanlega sumarbústað eða bát, þá tengir það hjónin ekki lengur saman.

Loks getur hjónabandið verið í ládeyðu vegna þess að öðru eða báðum finnst þau vera föst í hlutverkum og vana og sjá ekki leið til að breyta neinu. Valið stendur um að finna nýjar skemmtilegri leiðir, eða halda áfram saman með nöldri og leiðindum, eða taka sig saman í andlitinu og gefa niðurníddu hjónabandinu þarfa andlitslyftingu.

Viðkvæði eins og Við höfum það svo sem ágætt, ekkert sérstaklega spennandi, en það er ekki við því að búast eða Ekta líf er fyrir einhverja aðra en okkur. (Hvað er þá ekta líf? Er það lífið, sem er fjallað um í Séð og heyrt?) Ástin er einhver rómantísk della, sem við höfum enga trú á. Þetta lýsir uppgjöf og vantrú, sem gefur til kynna að fólk sætti sig við þau örlög að svona sé nú hjónabandið einu sinni.

Barnið hefur skólagöngu:
Mörg hjón endurskoða líf sitt á þessum tímamótum og ákveða að fríska upp á tilveruna, fá aðeins meira fjör í þetta og bæta sambandið.

Ein ástæðan getur verið, að fyrsta barnið sé að byrja í skóla og hversdagslífið tekur miklum breytingum. Nagandi óvissa um hvort uppeldið hafi tekist nægilega vel til að barnið geti staðið sig úti í samfélaginu.

Hvað með umferðina, ræður hann við að hjóla? Verður honum strítt af félögum sínum? Margt kemur til greina. Hvernig gengur honum að læra að lesa? Vonandi að hann sé ekki lesblindur. Var ekki frændi þinn lesblindur? (Varnarviðbrögð foreldra birtast, ef þeir óttast að barnið þeirra standi ekki jafnfætis öðrum börnum. Handhægt að afsaka sig með erfðum).

Ég hef átt tal við foreldra, sem fannst að nú myndi reyna á uppeldið og höfðu þungar áhyggjur af að sleppa hendi af barninu, nú myndu vandalausir taka völdin. Sonur minn kom heim úr skólanum sagði einn faðir mér og sagði að kennslukonan væri miklu klárari en ég. Mér rann kalt vatn milli skinns og hörunds, því að fram til þessa var ég alltaf sá langklárasti.

Bandaríski sálfræðingurinn Erik H. Erikson bendir á að samviska barnsins byrjar að þroskast áður en það nær skólaaldri, það þýðir að það tileinkar sér þau gildi, sem það lærir af foreldrunum. Þetta stuðlar að því að það þarf ekki eins mikið á bókstaflegri nærveru foreldranna að halda til að verja sig. Samviska barnsins, eða foreldrið inni í barninu, þjónar því hlutverki að verja það í viðsjárverðum heimi. Þessi þróun heldur áfram og jafnframt verður barnið þeim mun minna háð foreldrunum.

Það er ekki auðvelt að byrja allt í einu að tjá óánægju sína með vinnuna eða hlutverkaskipan í hjónabandinu, ef það hefur ekki tíðkast áður. Ekki síst ef maður hefur verið í hlutverki málamiðlarans á heimilinu og séð til þess að allt gangi smurt fyrir sig frá degi til dags, barnanna vegna.

Fólk eyðir sumt hvað orku sinni í að halda öllu sléttu og felldu á yfirborðinu og er upptekið af foreldrahlutverkinu, en hefur gleymt hvort öðru í hjónalífinu.

Stöðugt er ýtt undir samviskubit foreldra, svo að þau ganga um með nagandi sektarkennd út af börnum sínum. Þeim finnst þau vera léleg mamma eða gagnslítill pabbi.

Foreldrar vanrækja börnin sín er fyrirsögn í dagblaði, og í greininni kemur fram að: Þeir hugsi bara um sjálfa sig og dauða hluti. Endalaust er hamrað á þessu til að viðhalda sektarkennd okkar foreldranna. En gerir sektarkenndin okkur að betri foreldrum? Það efa ég stórlega. Hins vegar er því ekki að neita, að heimilið er sköpunarverk okkar foreldranna og við getum ekki hafnað allri ábyrgð, ef börnin okkar þrífast ekki.

Ég hef þá trú, að allir foreldrar vilji gjarnan gefa börnum sínum blíðu, ást og viðurkenningu, og að þeir viti að börnin hafi þörf fyrir það. En hvaðan koma allar þessar göfugu kenndir? Þær koma að innan, úr tilfinningalegum gnægtabrunni, sem á að fá næringu frá annarri fullorðinni manneskju, sem við elskum og sem elskar okkur. Þess vegna verðum við að viðhalda hlýjunni hjá hvort öðru.

Ef við viljum vera góðir foreldrar, er nauðsynlegt að okkur þyki vænt hvoru um annað, annars sýnum við börnunum bjagaða mynd. Börnin skynja glöggt ef við erum að látast. Það veldur þeim vansæld og þau mótmæla.

Við getum ekki keypt okkur laus með ís eða reiðhjóli, ef barnið þarf á blíðu og umönnun að halda.

Jólin eru dásamleg hátíð og gott frí, en í stað þess að njóta samvista og hvíldar hvort með öðru og börnunum, finnst mörgum þeir skuldbundnir að taka þátt í fjölskylduboðum yfir öll jólin. Hér verður líka að forgangsraða. Það er ekki víst að maka þínum finnist eins gaman að vera með foreldrum þínum og þér. Það væri hugmynd að skipta sér niður. Annað, sem getur valdið misklíð eru hefðirnar. Sumir vilja hvítt jólatré, aðrir með fánum og glingri. Smáatriðin geta skemmt góða skapið, því skulið þið ákveða fyrirfram hvernig jólin skuli haldin og standa við það.

Dæmi:
Það kastaðist illa í kekki milli hjóna nokkurra á jólunum og hún kom og lýsti yfir: Nú vil ég skilnað, hann er tillitslaust fúlmenni. Hann hafði skreytt jólatréð í þrjú ár í röð eftir sínum smekk: Englahár, silfur- og gullkúlur og gormar. Í ár var meiningin að hún skyldi skreyta tréð með kramarhúsum, sem hún og börnin höfðu útbúið. Þetta var samkomulag. Á Þorláksmessu labbaði hann sig inn í stofu með jólatrésfótinn og læsti að sér og hún heyrði að hann var eitthvað að bauka. Ég hafði ekki geð í mér að eyðileggja jólin fyrir börnunum, svo að ég sagði ekki neitt. Það snjóaði á jóladag í ár. Ég fór með jólatréð hans út í snjóinn og allt bansett glingrið hrundi af því. Nú er mér nóg boðið, ég ætla að halda næstu jól ein með börnunum, án hans.

Þau skildu reyndar ekki, en valdabarátta þeirra snerist líka um fleira en jólaskraut. Þau höfðu verið gift í 6 ár. Jólin eftir fékk ég jólakort með mynd af blönduðu tré – bæði með englahári, fánum og kúlum.

 

SHARE