Hjúkrunarnemar á þriðja ári halda út til Indlands að vinna við hjálparstarf

Síðustu ár hefur það tíðkast að þriðja árs hjúkrunarfræðinemar fari erlendis til að vinna sjálfboðastarf. Í ár ætla 5 nemar og einn útskrifaður hjúkrunarfræðingur að fara saman til Jaipur á Indlandi á vegum ferðaskrifstofunnar Kilroy og Idex sem eru indversk sjálfboðasamtök.

Þær Heiðrún, Lilja, Sonja, Unnur, Ólína og Halla fara saman út þann 10. maí og verða á vegum Idex í fjórar vikur. Stelpurnar munu vinna á sjúkrahúsi í fátækrahverfi en Heiðrún sagði að þær hefðu valið að fara í gegnum Kilroy til að forðast óþarfa vandræði og vera öruggar. Á meðan dvölinni stendur munu þær gista í húsi með öðrum sjálfboðaliðum.

Stelpurnar hafa verið mjög frumlegar við safna peningum fyrir ferðina. Þær hafa meðal annars séð um lúsakembingu í skóla á höfuðborgarsvæðinu gegn vægu gjaldi, haldið bingó, farið í fyrirtæki og mælt blóðþrýsting, blóðsykur og bmi þyngdarstuðul ásamt fleiru. Einnig hefur Go sjúkragæsla útvegað þeim vinnu á menntaskólaböllum sem þær fá svo borgað fyrir inn á sameiginlegan reikning. Þær vonast svo til að geta farið í verslunarmiðstöðvar til að fá að mæla blóðþrýsting, blóðsykur og bmi þyngdarstuðul gegn frjálsum framlögum.

Hægt er að styrkja stúlkurnar með því að leggja inn á reikning 115-15-382164, kennitala 441013-0430.

SHARE