Hliðarpersónuleiki

Hliðrunarpersónuleikaröskun (avoidant personality disorder) er ein af 10 persónuleikaröskunum sem eru skilgreindar í dag. Persónuleikaraskanir eiga það sameiginlegt að vera viðvarandi mynstur af reynslu og hegðun sem er verulega frábrugðin væntingum þess samfélags sem einstaklingur býr í. Helstu einkenni hliðrunarpersónuleikaröskunar er hlédrægni í félagslegum samskipum, vanmetakennd og viðkvæmni fyrir gagnrýni. Fólk með þessa röskun forðast að eiga samskipti við aðra af ótta við gagnrýni eða höfnun. Þau eru auðsærð, eiga fáa vini eða trúnaðarmenn og einangra sig félagslega. Skilgreining á félagsfælni (social phobia) svipar mjög til hliðrunar-persónuleikaröskunar þ.e.a.s yfirdrifinn, óraunhæfur og þrálátur kvíði í tengslum við félagslegar aðstæðum. Því telja sumir fagaðilar að þessar tvær raskanir eigi heima undir sama hatti í flokkunarkerfi yfir geðsjúkdóma.

Meðferð og batahorfur

Batahorfur eru almennt taldar góðar ef einstaklingur leitar sér lækningar, hinsvegar eru ýmsir þættir sem hafa áhrif eins og alvarleiki einkenna, persónuleikagerð og ef fíknisjúkdómar eru til staðar. Markviss viðtalsmeðferð hefur gefið bestan árangur, engin lyf virðast virka á kjarnaeinkenni persónuleikaraskana en oft eru ýmis lyf notuð við hliðareinkennum svo sem depurð og kvíða. Eins á við um félagsfælni, viðtalsmeðferðin byggir einkum á hugrænni atferlismeðferð, þar sem einstaklingurinn er útsettur með kerfisbundnum hætti fyrir þeim aðstæðum sem hann óttast. Samhliða því fær hann þjálfun í að breyta hugsanarhætti sínum og skynjunum.

Höfundur greinar:

Dóra Mjöll Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur

Fleiri heilsutengdar greinar á doktor.is logo

SHARE