Holl ráð um of stór brjóst

Brjóstin breytast alla ævi

Brjóst kvenna eru misjafnlega sköpuð. Þau breyta um lögun og stærð alla ævi.

Vera kann að þú finnir fyrir spennu og þrota í brjóstunum þegar líður að tíðablæðingum. Þessi tilfinnig líður hjá um leið og blæðingar hefjast.

Þegar þú verður barnshafandi og eftir fæðingu muntu einnig finna greinilega spennu í brjóstunum, og þau stækka þegar mjólkurkirtlarnir þroskast og mjólkurframleiðslan þróast.

Síðar á ævinni minnkar kirtlastarfsemin, og fita eykst. Af því leiðir að brjóst sumra kvenna stækka, en hjá öðrum vilja þau stundum minnka.

Sjá einnig: 5 brjóstahaldara mistök og hvað er til ráða?

Konur og brjóst þeirra

Margar konur eru ósáttar við útlit og brjóstastærð. Það byggist að sjálfsögðu á því að menning okkar leggur þunga áherslu á hlutverk brjóstanna í kynþokka kvenna. Fjölmiðlar mata okkur stöðugt á fyrirmyndum sem teljast hafa óskaútlitið á hverjum tíma. Meðvitað eða ómeðvitað dreymir sumar konur eflaust um að brjóst þeirra falli að forskrift þessarra tilbúnu fyrirmynda.

Óþægindi af stórum brjóstum

Of stór og lafandi brjóst geta verið til ama. Jafnvel ungum konum, sem hvorki hafa orðið barnshafandi né fætt barn, getur fundist stærð brjósta sinna verulegt lýti. brjóstahaldari af réttri stærð getur hjálpað en hann leysir ekki vandann þegar farið er úr fötunum, hvort sem það er á ströndinni á sumrin, í búningsklefanum, í sundi eða bara heima.
Við hin getum haft okkar skoðun, hrist höfuðið eða reynt að hughreysta viðkomandi. Það kemur samt að litlu gagni.
Brjóstin geta líka verið svo óbærilega stór og þung að þau valdi líkamlegum óþægindum. Hlírar brjóstahaldarans grafast niður í axlirnar, líkamsburður verður afbakaður og afleiðingin er verkir og vöðvabólga, bæði í brjóstkassa, öxlum og baki.

Sjá einnig: Stór brjóst án skurðaðgerðar

Hvert á að leita aðstoðar?

Ef ástæða er til, áttu að ræða þetta við lækninn þinn, og gildir þá einu hvort þú sért ung (þú verður að vera fullþroskuð og komin af gelgjuskeiðinu) eða eldri. Engu skiptir, hvort þú hefur fætt barn eða ekki.

Læknirinn metur þörf þína fyrir aðstoð. Þá er um að ræða skurðaðgerð. Læknirinn mun vísa þér á viðeigandi deild á sjúkrahúsinu. Árangurinn felst ekki eingöngu í minnkun brjóstanna, útlit þeirra verður að vera þóknanlegt og þá auðvitað sérstaklega þér.

Hvernig fer aðgerðin fram?

Í aðgerðinni er fjarlægt hæfilegt magn af brjóstvef og húð. Geirvörturnar eru látnar halda tengslum við kirtla og fituvef, en þær eru færðar hærra upp á brjóstvegginn þar sem hringlaga húðbót hefur verið fjarlægð á réttum stað. Bæði stór og lafandi brjóst eru skorin á þennan hátt.

Yfirleitt er mjög góður árangur af þessum aðgerðum, svo þú getur hlakkað til að ljúka þessu af. Aðgerðin er ókeypis, eftir tilvísun læknis, og ef starfsfólk sjúkrahússins er sammála um að þú hafir þörf fyrir aðgerðina.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE