Honey Boo Boo er hætt: Mama June tekin saman við barnaníðing

Honey Boo Boo er horfin af skjá bandarísku þjóðarinnar og ný sería verður ekki send í loftið, þrátt fyrir að talsvert hafi verið kostað við gerð nýrrar þáttaraðar sem er tilbúin til sýninga.

Ástæðan er hryllileg; Mama June sem er skilin að skiptum við eiginmann sinn, er að sögn slúðurmiðla vestanhafs tekin saman við dæmdan barnaníðing sem misnotaði náinn ættingja hennar á árum áður.

Maðurinn sem um ræðir heitir Mark McDaniel og var látinn laus úr fangelsi í mars sl, en hann afplánaði hvorki meira né minna en 10 ára fangelsisdóm fyrir að hafa þvingað átta ára gamalt barn til munnmaka.

Þetta kemur fram á vef TMZ en þar segir einnig að Mama June hafi átt í leynilegu ástarsambandi við Mark allt frá í júní á þessu ári. Því til stuðnings birtir TMZ ljósmynd af hinu meinta pari sem tekin var á hótelherbergi fyrr á þessu ári í litlu einkasamsæti. Mama June hefur harðneitað öllum söguburði og segir af og frá að hún myndi nokkru sinni stefna eigin börnum í hættu en forráðamenn sjónvarpsstöðvarinnar eru óhagganlegir í afstöðu sinni og verða ekki fleiri þættir með Honey Boo Boo á dagskrá héðan í frá.

 

Þessi ljósmynd setti allt í háaloft og stefndi framtíð Honey Boo Boo í voða:

1022-june-in-bed-tmz-wm-4 (1)

Mama June og Mark McDaniel í leynilegum gleðskap á hótelherbergi fyrr í sumar

Þó lofar sjónvarpsstöðin öllu fögru og segist ekki ætla að snúa baki við börnunum, þvert á móti hafi forsvarsmenn hugsað sér að greiða skólagjöld og ráðgjöf fyrir börn Mama June.

Okkur ber fyrst og fremst skylda til að styðja við þessi mögnuðu börn. TLC mun halda verndarhendi yfir þessum börnum og sjá til þess að þörfum þeirra verði mætt. Velferð þeirra verður í forgangi.

Þá er að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir barnastjörnuna Honey Boo Boo. Það getur ekki verið auðvelt að vera barn í heimi fullorðinna á tímum sem þessum, sér í lagi ef barnið er jafnframt helsta tekjulind heimilisins.

SHARE