Utangarðsfólk hefur verið viðfangsefni breska ljósmyndarans Lee Jeffries allt frá árinu 2008 og hefur hann ferðast víða um heiminn og myndað hinn ískalda raunveruleika götunnar. Í þessari myndaseríu einbeitti hann sér að portrettmyndatöku.
Eftir að hafa heyrt sögu 18 ára gamallar stúlku sem lá á götunni í svefnpoka í Manchester var ekki aftur snúið fyrir Jeffries og er það hans einlægur ásetningur að vekja athygli á stöðu utangarðsfólks með ljósmyndum sínum. Ekki einungis í heimalandi sínu Bretlandi heldur um gjörvallan heiminn og hefur hann ferðast víða og talað við margt fólk sem er í þessari hryllilegu aðstöðu að eiga hvergi heima.
“Allt hefur þetta fólk mismunandi bakgrunn og sögu að segja, en eitt eiga þau öll sameiginlegt og það er einmannaleikinn”, segir Jefferies.
Myndirnar hans láta áhorfandann ekki ósnortinn og er hann með þessu framlagi sínu svo sannarlega að leggja sitt af mörkum á vogarskálarnar bæði til að vekja athygli stjórnvalda á aðstæðum þessa minnihlutahóps og almennings sem oftar en ekki gengur framhjá þessum manneskjum á götu úti án þess að taka eftir þeim eða rétta fram hjálparhönd.
Hægt er að lesa umfjöllunina um ljósmyndir Lee Jefferies af utangarðsfólki í heild sinni HÉR
Þóra er keramikhönnuður og starfar sem slíkur á vinnustofu sinni í Hafnarfirði ásamt pistlaskrifum og kennslu. Þóra reynir að tileinka sér umhverfisvæna mannasiði á sem flestum sviðum og notar t.d. sem náttúrulegust hráefni í hönnun sína. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima og ytra ásamt því að hafa komið að rekstri tengdum heilsu og hönnun.