Breytingaskeið kvenna er það tímabil þegar hormónaframleiðsla eggjastokka fer að verða óregluleg og minnkar þar til hún hættir að mestu. Tíðahvörf eru þegar síðustu blæðingar verða. Breytingar á blæðingum eru oft fyrstu einkenni sem konur finna um að tíðahvörf séu að nálgast. Þetta getur gerst löngu áður en blæðingar hætta alveg og áður en kominn er verulegur hormónaskortur, þ.e. skortur á estrógeni.
Dæmigerð estrógenskortseinkenni eru hitakóf og svitasteypur með meðfylgjandi vanlíðan og stundum svefntruflunum. Þessi einkenni koma mis-snemma á breytingaskeiði, en oftast ekki fyrr en tíðahvörfin eru komin, þ.e. þegar blæðingar hafa alveg hætt. Aðrar afleiðingar af estrógenskorti geta komið síðar og lýst sér sem þurrkur og óþægindi í ytri kynfærum og leggöngum.
Estrógen eggjastokkanna eru nauðsynleg til að byggja upp og viðhalda styrk beina. Skortur á estrógeni eftir tíðahvörf er aðalorsökin fyrir því að beinþynning er algengari meðal kvenna en karla. Auk þessa er talið að estrógen kvenna eigi mestan þátt í að kransæðasjúkdómar eru fátíðari hjá konum fyrir fimmtugt en hjá körlum.
Hormón og skyld lyf fyrir konur við og eftir tíðahvörf má flokka eftir því að hvaða þáttum meðferðin beinist.
Prógestín
Fyrir tíðahvörf er prógesterón framleitt í eggjastokkum í 12-14 daga eftir að egglos hefur orðið og stýrir þetta ferli blæðingunum. Við blæðingatruflunum í byrjun breytingaskeiðs nægir oft að nota eingöngu hormón sem eru lík, og hafa sömu verkun, og hormónið prógesterón. Þau eru af ýmsum gerðum og kallast einu nafni prógestín.
Ef koma á reglu á óeðlilegar blæðingar, stöðva þær eða seinka, eru þessi hormón tekin inn í 10 daga eða lengur. Blæðing hefst aftur um 2 dögum eftir að kúrnum lýkur. Þetta má endurtaka í hverjum mánuði frá 16. degi frá því blæðingar hófust síðast og koma þannig reglu á blæðingarnar. Hér á landi eru nóretísterón (Primolut) og medroxýprógesterón-asetat (Perlutex) mest notuð, en einnig má nota hormónið lýnestrenól sem er í pillunni Exlutona.
Estrógen og Prógestagen
Gegn breytingaskeiðseinkennum og afleiðingum minnkaðrar hormónastarfsemi þarf að taka estrógen. Til að vernda legslímhúðina fyrir of mikilli örvun af estrógeni og til að halda reglu á blæðingum þarf ávallt að taka eitthvert prógestín, annað hvort í „kaflaskiptri“ meðferð eða samfellt, á hverjum degi með estrógeni.
Estrógenið sem aðallega er notað í hormónasamsetningum gegn breytingaskeiðseinkennum er estradíól, sem er virkasta form náttúrulegra estrógena. Prógestín í hormónablöndum geta verið mismunandi. Estradíól er til í töflum, húðplástrum, húðkremi, forðasprautum og forðatöflum. Áhrifin eru yfirleitt mjög góð óháð því hvaða form er notað, en einstaklingsbundið hvað hentar best. Við kaflaskifta hormónameðferð er oftast tekið estradíól í 10-12 daga (listi yfir lyf með virka efninu estradíól), síðan estradíól og eitthvert prógestín með í 10 daga og þá er gert hlé eða tekið minna af estradíóli í 6-7 daga og á því tímabili koma blæðingar (dæmi:Trisekvens, Cykloprogynon, Climen, Nuvelle). Þekktasta lyfið sem notað er við samfellda estrógen/prógestín meðferð er Kliogest sem inniheldur estradíól og nóretísterón alla daga. Við þannig meðferð eiga ekki að vera blæðingar.
Estrógen eingöngu
Ef leg hefur verið fjarlægt má sleppa því að taka prógestín með estrógeni. Estrógen er þá tekið samfellt án þess að gerð séu hlé á milli. Nota má töflur (Progynon), plástur (Estradermog Evorel), húðhlaup (Estrogel), forðasprautur (Progynon-depot) og forðatöflur undir húð með allt að 6 mánaða verkun (Oestradíól en þær eru á undanþágulista lyfjanefndar). Til eru ýmis form af estrógenum til að meðhöndla þurrk í leggöngum hjá eldri konum. Slík hormón verka staðbundið og byggja upp þunna slímhúð en hafa lítil almenn áhrif í líkamanum og má nota án þess að gefin séu prógestín með.
Lyf við beinþynningu með sértæka verkun á estrógen viðtaka
Til er hópur lyfja sem líkjast estrógeni en eru þó ekki kynsterar, á ensku nefnd „Selective Estrogen Receptor Modulators” (SERM). Þessi lyf hafa mismunandi verkun á estrógen viðtaka eftir því hvar í líkamanum þeir eru. Í sumum líffærum geta þau verkað örvandi en í ö ;ðrum letjandi. Þekktust eru klómífen sem notað er til að örva egglos og tamoxífen til að meðhöndla brjóstakrabbamein.
Nýlega hefur verið þróað lyf úr þessum lyfjaflokki sem virðist hafa estrógen líka verkun í beinum og örvar þannig uppbyggingu þeirra en hefur ekki örvandi áhrif á legslímhúð eða brjóstavef. Þetta er raloxífen (Evista) sem notað er til að meðhöndla og/eða fyrirbyggja beinþynningu hjá konum eftir tíðahvörf. Lyf þetta veldur ekki áframhaldandi blæðingum og getur verið góður kostur þegar ekki er hægt að nota estrógen.