Hreint helvíti

Í dag er ég þakklát! Svo þakklát að á hverjum morgni finn ég fyrir gæsahúð þegar þakklætistilfinningin lekur niður bakið á mér.

Frumburðurinn minn er edrú og er að gefa til baka með því að selja álfinn fyrir SÁÁ.

Það eru rétt rúm 2 ár síðan hjartað í honum stoppaði vegna ofneyslu og það var ekki í fyrsta sinn, nei það voru ótal skipti sem dauðinn reyndi að ná honum.

Frumburðurinn minn er fíkill og hefur verið mjög veikur af fíknisjúkdómnum og það hefur verið óendanlega sárt fyrir mig sem móður að horfa á son minn týnast í heimi fíknar. Breytast úr bjarta og fallega drengnum mínum yfir í slóttugan sprautufíkil sem gerir hvað sem er fyrir næsta skammt.

Sjá einnig: Fyrir og eftir fíkniefnadjöfulinn

Að vita af honum þarna úti í þessum ljóta heimi, ekki vita hvort hann er lífs eða liðinn, hvort hann er að berja einhvern til óbóta eða einhver að berja hann, hvort sprautan sé smituð af einhverju ógeði, hvort hann „óverdósi“, lesa um feril hans í blöðunum og svo mætti lengi telja. Endalaus ótti um að SÍMTALIÐ komi þar sem mér sé tilkynnt að hann sé látinn.

Allar tilfinningarnar sem fylgja því að vera móðir sem horfir upp á barnið sitt dansa við dauðann og geta ekkert gert til að vernda hann, ekkert.

Þeir sem búa að þeirri reynslu að eiga barn sem fíkil þekkja þetta sem ég skrifa hér, þekkja vonleysið sem hellist yfir og óttann, já og skömmina, sjálfsásökun og margar aðrar erfiðar tilfinningar.

Sjá einnig: Allt sem þú vilt vita um fíkn

Ég segi það án þess að svitna:

Það er hreint helvíti að ganga í gegnum þetta en þetta helvíti er líka alveg ótrúlega þroskandi, þroski sem maður velur ekki en þroski engu síður.

En eitt sem ég hef lært og vill minna þá foreldra á sem eiga fíkil þarna úti.

Að á meðan það er líf er von, engin er vonlaus.

Aldrei hefði ég trúað því fyrir þremur árum að minn stæði í dag edrú og flottur að selja álfinn fyri sáá.

Ég mæli líka með því að foreldrar hlúi vel að sér og nýti sér þá aðstoð sem er í boði fyrir þá.

 

SHARE