Hrekkjavökuförðun – Flottar myndir

Hrekkjavaka er hátíðisdagur ættaður úr keltneskri trú, drúídar færðu þá þakkir fyrir uppskeruna og boðuðu komu vetursins. Hrekkjavaka er haldin 31. október. Hrekkjavöku fylgdu ýmsar hefðir, leifar sumra þeirra lifa í hrekkjavöku nútímans þar sem fólk klæðist grímubúningum og sjá má drauga og aðrar óvættir í skreytingum. Börn ganga oft á milli húsa og biðja um nammi.

Í dag er halloween sennilega vinsælust í Bandaríkjunum þar sem að börn og fullorðnir klæða sig upp, hús eru skreytt og gengið er á milli húsa og nammi sníkt með orðunum: “trick or treat”.

Hrekkjavakan hefur í nokkur ár átt vaxandi vinsældum að fagna hér heima og sýnist sitt hverjum um ágætið. Sumir fussa og sveia að landinn sé að taka upp ameríska siði meðan aðrir taka fullan þátt, farða sig og fara í búning.  Undirrituð er árlega boðin í hrekkjavökupartí þar sem að gestgjafar hafa gjörsamlega tapað sér í skreytingum, búningum og veigum. Gestirnir mæta í ýmiskonar gervi, allt frá venjulegum Jóni í sjálfan Batman og allt þar á milli. Sumir láta sér nægja að skella á sig yfirvaraskeggi og fölskum tönnum meðan aðrir eru all-in og marga mánuði að undirbúa förðunina og búninginn. Það er bara gaman að svona dögum sem færa okkur gleði og skemmtun yfir veturinn. Pössum samt upp á að halda líka í okkar siði og okkar daga.

Meðfylgjandi eru nokkrar myndir af flottri förðun fyrir hrekkjavökuna. Við munum svo birta fleiri myndir og greinar um halloween næsta mánuðinn.

SHARE