Hrottafengið rán í Reykjavík: Réðust á 60 ára konu og drógu eftir götunni

Bíræfið og fremur hrottafengið rán var framið í Yrsufelli um miðnætti sl. miðvikudagskvöld og óskar Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu eftir vitnum að atvikinu. Þetta kemur fram á vef lögreglunnar en tilkynningin í heild sinni er svohljóðandi: 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir vitnum að ráni við Yrsufell eða Þórufell í Reykjavík um miðnætti sl. miðvikudagskvöld. Málsatvik voru þau að kona um sextugt fór úr strætisvagni (leið 12) við Yrsufell og gekk örstuttan spöl þegar framhjá henni ók vespa, en þeir sem á henni voru, ökumaður og farþegi, rifu í tösku sem konan bar við öxlina. Við það féll konan í götuna og dróst nokkra metra með vespunni en hún sleppti að lokum takinu á töskunni, sem ræningjarnir höfðu síðan á brott með sér. Konan leitaði á slysadeild eftir ránið, en hún hlaut nokkra áverka.

 

Þeir sem urðu vitni að ráninu, eða geta veitt upplýsingar um málið, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000 en einnig má senda upplýsingar í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Sérstaklega er óskað eftir að kona sem fór úr strætisvagninum á sama stað og brotaþoli hafi samband við lögreglu.

SHARE