Húð unglinga og sjálfsmynd

Í þessari grein verður fjallað um unglingabólur, orsök, einkenni, áhrif þess á sjálfsmynd unglinga og úrræðamöguleika. Það eru til ýmis úrræði við þessu húðvandamáli en allt fer það eftir eðli kvillans og alvarleika hvert þarf að leita, til snyrtifræðings, heimilislæknis eða húðsjúkdómalæknis auk heimameðferðar sem er oftast grundvöllur fyrir því að góður árangur náist.

Unglingabólur (Acne Vulgaris) er algengt og alvarlegt húðvandamál.

Algengast er að þetta húðvandamál byrji á aldrinum tólf til fjórtán ára en mun yngri börn geta fengið þetta líka og getur það staðið fram yfir tvítugt. Ekki er heldur óalgengt að fullorðnir finni fyrir þessu og þá frekar kvenmenn en karlmenn.

Sjá einnig: Þarftu að losna við bólur?

Hver er orsökin ?

Aðalorsökin fyrir þessu húðvandamáli er sú að aukning verður á framleiðslu karlkynshormónsins Androgen hjá báðum kynjum. Þessi aukna hormónaframleiðsla í líkamanum leiðir til aukinnar framleiðslu á húðfitu í fitukirtlum og flæðir húðfitan í (sebum) upp á yfirborð húðar.

Fitukirtlarík svæði líkamans eru sérstaklega útsett fyrir þessu húðvandamáli en það eru höfuð, andlit, bringa og efst á baki.

Unglingabóluhúð kemur fram sem feit húð með fílapenslum, litlum fitunöbbum og graftarbólum. Annað sem gerist líka er að við fitukirtlagangana sem líka má kalla húðholur myndast of mikið af hornfrumum sem þrengir op fitukirtlanna þannig að húðfitan kemst ekki auðveldlega upp á yfirborðið. Myndast þá fílapensill sem getur verið bæði opinn og lokaður, ef lokaður þá stíflast fitukirtlagangarnir. Þegar fitukirtlagangarnir stíflast safnast olíukennd fita í kirtlinum sem fyllist, þar til veggir kirtilsins rofna og fitan fer út í utanaðliggjandi húðvefi. Þegar þessu ástandi er náð er komin bóla með roða og oft þrota í kringum. Þessi bóla gæti endað sem kýli.

Húðbakterían Propioneba terium acne þrífst síðan á húðfitunni og veldur bólum.

Unglingabólur eru mjög breytilegar eftir einstaklingum. Sumir fá bara fílapensla, aðrir bara litlar bólur og enn aðrir eingöngu kýli, svo er hægt að fá allar útgáfur húðsjúkdómsins.

Alvarlegri húðvandamál (Acne Conglobata) eru líka þekkt og er algengast hjá unglingum sautján til tuttugu ára en getur einnig varað lengur. Útlit acne conglobata er svipað og acne vulgaris en með kýlamyndunum og dýpri örum.

Áhrif þessa á unglinginn

Eins og við þekkjum langflest af eigin reynslu geta unglingsárin verið erfið.

Unglingabólur geta haft mikla andlega vanlíðan í för með sér. Einnig getur þetta skapað félagsleg vandamál og samskiptavandamál fyrir unglinginn. Margar og stórar bólur geta einnig skilið eftir sig ör sem unglingurinn ber síðan alla ævi sem getur haft áhrif á sjálfsmynd hans á fullorðinsárum.

Sú sjálfsmynd sem unglingurinn er að ná á unglingsárunum skiptir miklu máli og stuðlar að betri líðan í framtíðinni.

Sterk sjálfsmynd er eitt besta veganesti sem unglingar geta fengið út í lífið þar sem hún eykur líkurnar á velgengni og vellíðan.

Húðvandamál getur skert sterka sjálfsmynd unglingsins og gert unglingsárin erfiðari.

Sjá einnig: Af hverju fær fólk bólur?

Hvað er til ráða ?

Eins og áður var bent á eru ýmis úrræði til en allt fer það eftir eðli kvillans og alvarleika hvert best er að leita.

Heimameðferð

Ekki trúa á skyndilausnir sem segja þér að eitthvað ákveðið efni eða aðferð leysi þitt húðvandamál í eitt skipti fyrir öll, þetta tekur langan tíma og góða ástundun en ber árangur ef að rétt er að farið. Allt of margir eyða miklum fjármunum í hreinsivörur og krem sem henta svo ekki þeirra húðtegund og gera húðvandamálið jafnvel verra.

Hollt og næringarríkt mataræði skiptir máli ásamt heilsusamlegu líferni og hreyfingu. Drekka mikið vatn til að auka losun úrgangsefna líkamans. Þessi atriði verða aldrei ofmetin. Of mikil streita hefur líka áhrif til hins verra.

Unglingabóluhúð skal meðhöndla eins og um viðkvæma húð sé að ræða. Ekki nudda húðina, ekki skrúbba hana með ertandi efnum, ekki kreista bólurnar því það getur skilið eftir sig ör.

Vara sig á miklum kulda, hita og sólarbirtu. Sólarbirta getur haft góð áhrif á bólurnar tímabundið en heldur þeim ekki alveg niðri. Þar að auki valda of miklir sólargeislar húðskaða og jafnvel krabbameini.

Nota hreinsivörur og krem sem innihalda ekki fitu og stífla þar með ekki húðholur húðarinnar.

Leitað til snyrtifræðings

Snyrtifræðingar hafa viðeigandi menntun varðandi húð, húðgreiningu og meðhöndlun og kunnáttu í hinum ýmsu húðvandamálum. Snyrtifræðingar eru fagmanneskjur sem geta greint þína húðgerð og ráðlagt síðan hvað húðmeðferð og húðvörur þín húðgerð þarf á að halda. Snyrtifræðingurinn ráðleggur við að hreinsa húðina kvölds og morgna og við að finna krem og maska við hæfi.

Markmið meðhöndlunar á snyrtistofu er að hreinsa húðina og sótthreinsa án þess að mynda mikinn þurrk. Snyrtifræðingar veita húðhreinsun sem sefar, róar, minnkar þrota og bólgu í húð og miðar að því að auka húðflögnun til að hindra frekari stíflumyndun. Þetta gera þeir með ýmsum aðferðum s.s. að kreista fílapensla, nota hátíðnitæki eða rafræna djúphreinsun o.fl. Snyrtifræðingurinn veitir jafnframt fræðslu varðandi nauðsyn þess að koma í nokkur skipti til þess að ná árangri. Markviss meðhöndlun á snyrtistofu heldur vandamálinu í skefjun og er fyrirbyggjandi en læknar ekki. Húðhreinsun sem snyrtifræðingar veita á snyrtistofum geta bætt húðvandamálið verulega.

Snyrtifræðingar hafa einnig kunnáttu og reynslu til þess að meta hvort húðvandamálið er innan sviðs snyrtifræðinnar eða hvort vísa þurfi einstaklingnum áfram til læknis.

Leitað til heimilislæknis eða húðsjúkdómalæknis

Ef kvillin er alvarlegur þarf að leita til læknis. Nokkrar tegundir sýklalyfja er hægt að nota til meðferðar. Mismunandi er hvort sýklalyfin eru notuð með staðbundinni meðferð eða ein og sér. Einnig er mismunandi hversu lengi þau eru notuð og hversu miklar aukaverkanir þeirra eru. Allt er þetta gert í samráði við lækni og með hans leiðbeiningum. Getnaðarvarnarpillur hafa einnig verið notaðar, en þá fyrir konur sem eru komnar yfir tvítugt.

Lyfið Roaccutan sem inniheldur ísótretínóín hefur valdið byltingu við meðhöndlun á Acne Vulgaris á háu stigi sem ekki hefur svarað annarri meðferð. Eingöngu sjúklingar með þennan sjúkdóm mega nota lyfið og eingöngu þegar meðhöndlunin er í umsjá læknis með sérþekkingu á þessum sjúkdómi og meðferð við honum. Lyfið má ekki taka á meðgöngu. Venjuleg meðferðarlengd með þessu lyfi er 4-6 mánuðir.

SHARE