Heimurinn er ekki sá sami og hann var fyrir örfáum vikum. Óraunverulegt ástand og ógnvekjandi staðreynd sem vekur upp allskyns hugsanir og spurningar.
Ég velti því fyrir mér hvernig verður samfélagið þegar Covid 19 kveður?
Stundum efast ég um að þessi veirudrusla kveðji en það líður hratt hjá. Mun lífið aftur verða eins og það var eða hvað?
Ég veit ekki hver svörin eru ekki frekar en nokkur annar en rétt eins og allir jarðarbúar hefur þessi undarlegi tími áhrif á mitt líf og líf þeirra sem ég elska.
Ég er gift manni sem er með 2 tegundir af krabbameini og með nokkur mein í lungum sem og víðar um líkaman, hann telst til áhættuhóps og við höfum breytt öllu okkar lífi með það í huga.
Ég er sjálfstætt starfandi meðferðaraðili en sökum hans veikinda verð ég að breyta vinnu minni og reyna að vinna hana heima en það er misjafnt hvernig slíkt leggst í fólk sem er í meðferð eða á námskeiðum hjá mér. Eðlilega þetta er mjög náinn vinna og partur af vinnunni er samband meðferðaaðila við skjólstæðing.
Þannig að eins og svo margir er lifibrauðið mitt nánast ekkert og ég þarf samt að bera ábyrgð á leigu á atvinnuhúsnæði og öðrum gjöldum.
Ég væli það svo sem ekki þegar ég legg líf mannsins míns á vogarskálarnar. Mannslíf er alltaf meira virði en allir peningar heimsins en vissulega er þetta áfall og erfitt, sérstaklega þar sem ég hef lagt allt mitt í að byggja upp þetta litla fyrirtæki mitt og hef verið mjög farsæl en ég ríf þetta upp þegar Covid 19 kveður.
Vonandi því ég brenn fyrir starfinu mínu.
Sjá meira: fyrsta-islenska-konan-latin-ur-covid-19
Ég óttast líka fólk sem ekki fer að fyrirmælum varðandi sóttkví og samkomubann.
Skil ekki að fólk skuli ekki sjá alvöru málsins. Ef við horfum til Bergamo á Ítalíu þá verður þetta varla alvarlegra, þvílík sorg og hjarta mitt brestur þegar ég heyri fréttir utan úr heimi sem og hér innanlands. Sóttkví er eitt mikilvægasta tækið til að hefta útbreiðslu á smiti. Þannig að ef ein manneskja í sóttkví rífur sóttkví þá í raun stefnir hún öllum sem hún hittir í hættu og allir þeir sem hitta þá sem hún hittir eru í hættu. Þetta eru Dominoáhrif og öllum sem fylgjast með ætti að vera ljóst að veiran er bráðsmitandi og bráðdrepandi ef út í það er farið.
Sem eiginkona manns sem er í mikilli áhættu þá óttast ég sannarlega það að fólk fylgi ekki fyrirmælum. Minn maður myndi trúlega ekki lifa af að fá þessa veiru svo við erum í verndareinangrun þar til Covid 19 kveður.
Við höfum verið heima í verndareinangrun í 3 vikur og unum okkur bara vel.
kvörtum ekki og finnum okkur ýmislegt til dundurs. Förum í göngur alla þá daga sem veðrið hleypir okkur út, fengum lánað þrekhjól til að geta hjólað þegar veður er vont. Hreyfingin skiptir öllu máli fyrir líkama og sál. Við stundum líka jóga nidra enda ég jóga nidra kennaramenntuð og hann spilar á gong og tíbeskarskálar sem eru heilandi hljóðfæri.
Til þess að halda smá vinnu rútínu höfum við boðið fólki upp a ókeypis streym á jóga nidra og tónheilun í gegnum facebook grúbbu og það er gefandi að gefa það af sér til samfélgsins enda margar rannsóknir sem benda til að jóga nidra geti eflt heilunarmátt líkama og sálar. Hann semur ljóð og ég mála svo sköpuninn er líka að næra okkur. Aðalmálið við að vera heima svona lengi er að taka ákvörðun um að gera það besta úr því í stað þess að pirra sig yfir því að vera fastur eða föst heima. Mikið munum við njóta vel þegar Covid 19 kveður.
Samskipti fjölskyldumeðlima öðruvísi.
Þessi tími hefur svo sannarlega sýnt okkur hversu frábær börn við eigum og að sjálfsögðu besta barnabarnið. Við eigum samskipti í gegnum netið nema við örverpið sem býr heima en er að mestu inni í sínu herbergi til að verja pabba sinn. Undarlegir tímar þar sem við öll sem elskum hann eru að gera okkar besta til að vernda hann. Okkur mun þykja gott að knúsast þegar Covid 19 kveður.
Alltaf þakkarefni í öllum aðstæðum.
Ég er þakklát fyrir það flotta fagfólk sem er í framlínunni hvar sem sú framlína liggur. Hvort sem það eru Víðir, Þórólfur og Alma eða afgreiðslufólk, kennarara og þeir sem þrífa. Allt þetta fólk á ekkert nema þakklæti og hrós skilið að mínu mati. Ég er hrædd um að það verði að velja fleiri enn einn mann ársins 2020 þegar Covid 19 kveður.
Stöndum saman sem ein heild og þegar Covid 19 kveður þurfum við að halda áfram að standa saman sem ein heild og byggja upp samfélagið og heimin allann.
Ljós og kærleikur.
Kristín fæddist á nunnuspítala og var skírð á flugvelli í henni Ameríku.
Hún er gift og á þrjú börn og eitt barnabarn. Hún hefur að mestum hlut unnið við að efla fólk og hefur menntað sig á því sviði. Ásamt því að skrifa á hun.is vinnur hún sjálfstætt sem meðferðaraðili.
Elskar að lesa, skrifa og mála en útivist og andleg málefni heilla hana.
Hún skrifar út frá eigin reynslu, faglegu nótunum og kaldhæðnislega um upplifun sína af breytingarskeiði miðaldra kvenna. Með hækkandi aldri hefur hún lært að létta sér lífið sem húsmóðir og gera mat á einfaldan hátt en alveg afbragðsgóðan svo frá henni má sjá uppskriftir að ýmsu góðgæti.
Hennar mottó er jákvæðni út í kosmósið því hún hefur lært af lífinu að jákvæðni kemur manni ansi langt!