Í dag 25. ágúst sit ég fyrir framan tölvuna og hugleiði eitt og annað, lífið og tilveruna og hugsa til framtíðarinnar, hvað ég hafi að bjóða dóttur minni.
Ég er einstæð móðir. Á eina dóttur og er kennari. Líf mitt gengur út á það að láta enda ná saman um hver mánaðamót. Það gengur misvel, fer svolítið mikið eftir því hversu margar vaktir ég hef fengið í aukavinnunni. Ef ég hef enga vakt fengið þá gengur dæmið engan vegin upp og ef mikið hefur verið að gera í aukavinnunni þá næ ég mögulega að útrétta eitt og annað sem hefur setið á hakanum.
Við mæðgur spjöllum mikið saman um lífið og tilveruna, hún er í miklum tómstundum sem ég hef fengið hjálp við að standa straum af. Takk mamma og pabbi.
Eitt kvöldið segir þessi elska við mig mamma ég ætla að verða kennari eins og þú. Ég sat hljóð og hlustaði á þessa yndislegu dóttur mína segja mér að hana langaði til að verða kennari eins og ég. Viðbrögð mín við þessari játningu dótturinnar voru vægast sagt sjokkerandi. Þarna sat ég og horfði í augun á 12 ára gamalli dóttur minni og sagði við hana NEI. Ég vil ekki að þú verðir kennari eins og ég! Ég sé undrunina í augum dóttur minnar sem segir en mamma afhverju ekki, finnst þér ekki gaman að vera kennari? Svarið var ekki auðvelt. Ég elska starfið mitt en þoli ekki launin mín.
Þarna á þessu kvöldi fékk dóttir mín þá ræðu að maður yrði að velja sér nám og starf sem væri vel borgað. Hún yrði að velja sér menntun sem gæfi henni þau laun sem hún ætti skilið og að hún yrði að geta séð fyrir sjálfri sér og börnunum sínum ef hún ætti eftir að eignast þau. Ég óskaði henni ekki þess lífs að hafa áhyggjur um miðjan hvers mánaðar hvernig hún ætlaði að klára mánuðinn, kaupa nesti, nýja skó, úlpu o.s.frv. sem fylgir því að eiga börn. Svo ekki sé talað um að geta gefið börnunum sínum vasapening til þess að geta farið í bíó, ísbúðina o.s.frv. með vinunum.
Dóttir mín hefur ekki liðið skort af neinu tagi enda er hún svo heppin að eiga góða ömmu og afa sem gefa henni vasapening og hjálpa til við kaup á helstu nauðsynjum sem hana vantar í hinu daglega lífi. Ég óska dóttur minni ekki að vera í þessari stöðu þegar hún verður fullorðin að geta ekki séð fyrir sínum börnum og reyndar óska ég engu foreldri að þurfa að vera í þeirri stöðu að þurfa að vera upp á aðra komnir til að geta séð fyrir fjölskyldu sinni.
Það er með ólíkindum að fólk sem hefur menntað sig til til að vinna með fólki, kennarar, þroskaþjálfarar, iðjuþjálfarar, hjúkrunarfræðingar o.s.frv. fái ekki laun sem duga til að sjá fyrir fjölskyldu.
Ég velti því líka fyrir mér, ætli staðan væri eins ef fleiri karlmenn væru í þessum stéttum?
Greinina skrifar grunnskólakennari, einstæð móðir sem þráir að geta lifað lífinu þannig að hún hafi ekki áhyggjur af því hvernig hún ætlar að lifa út mánuðinn á kennaralaununum einum saman.