Að vera á tímamótum – við ætlum að fylgjast með þessum konum

Fyrir tveimur vikum auglýstum við á Hún.is eftir þátttakendum sem höfðu áhuga á að fara á fullt námskeið hjá Dale Carnegie. Áhuginn var mikill og alls bárust okkur samtals 116 umsóknir.

Þrjár heppnar konur urðu fyrir valinu og ætla þær að vera svo frábærar að leyfa okkur að fylgjast með hvernig gengur á námskeiðinu. Konurnar þrjár eiga það sameiginlegt að standa á tímamótum í tilverunni og þær vilja nýta sér námskeiðið til þess að efla sig og styrkja í ræðuhöldum og samskiptatækni, skipulagsfærni og fleiru.

Stutt kynning á þátttakendum og væntingum þeirra

 

Screen Shot 2014-11-17 at 10.52.34Nafn: Björg Jakobsdóttir
Aldur: 60 ára
Hjúskaparstaða: Gift, þrjár uppkomnar dætur
Fyrri störf: Skrifstofustjóri hjá Handpoint og Umboðsmanni Barna
Persónuleg kynning:

“Ég missti vinnuna nú í haust í fyrsta skiptið á lífsleiðinni og í kjölfarið finn ég að ég þarf að byggja upp sjálfstraustið og finna mig upp á nýtt. Það voru gríðarleg viðbrigði að missa vinnuna eftir tæplega ellefu ár í starfi en ég lenti í hópuppsögn og samdrætti í fyrirtækinu. Maður missir ákveðið sjálfstraust og finnur að drifkrafturinn er ekki sá sami og áður, ég varð svolítið eins og sprungin blaðra.  Auðvitað veit ég að ég stóð mig mjög vel í vinnu, en það var dálítið kippt undan mér fótunum við þessa uppsögn. Minn aldurshópur á gríðarlega erfiða innkomu á vinnumarkaðinn, hef heyrt það frá öðrum sem eru í sambærilegri stöðu og eru um fimmtugt og eru mjög vel menntaðar konur. Mig langar til þess að halda áfram að byggja mig upp og byrja að fá trú á eigin getu aftur. Ég hef fulla trú á því að námskeið hjá Dale Carnegie komi mér langt áleiðis.“

 

Screen Shot 2014-11-17 at 14.21.40Nafn: Emilia Christina Gylfadóttir
Aldur: 31 ára
Hjúskaparstaða: Í sambúð og á þrjú börn
Starf: Félagsráðgjafi og nemi í Opinberri stjórnsýslu.
Persónuleg kynning:

„Mér finnst erfitt að tala fyrir framan hóp af fólki um eitthvað sem viðkemur sjálfri mér. Þegar ég var tíu ára sem dæmi áttum við að semja ljóð í bekknum. Svo áttum við að standa fyrir framan skólann og lesa upp ljóðið. Ég hljóp og faldi mig undir kennaraborðinu frekar en að standa upp og lesa ljóðið. Fæturnir báru mig ekki og ég vildi ekki standa upp. Þetta var ljóð sem ég samdi sjálf og mér fannst það svo asnalegt, mér fannst ég vera að gera mig að fífli. Mér gekk ekki vel í skóla þrátt fyrir vilja og prúðmennsku. Ég var sett í tossabekk í gagnfræðiskóla og tókst þrisvar sinnum að falla á önn í menntaskóla. Ég var og hef aldrei verið í neinni óreglu. Mig langaði mikið að vera skipulögð og ganga vel, en einhvernveginn gekk það ekki upp.  Skólagangan mín er ekki búin að vera auðveld og hef ég þurft að berjast fyrir hverri einustu einingu.

Í náminu mínu átti ég mjög erfitt að segja mína skoðun og í hópverkefnum var ég sú sem var alltaf sammála, því það sem ég hefði að segja væri pottþétt mjög asnalegt. Ég gat ekki talað fyrir framan samnemendur mína og hafði ég og hef mjög litla trú á því að ég hafi eitthvað málefnalegt að segja.

En svo gerist það fyrir nokkrum vikum að ég fór að fá kvíðaköst, gjörsamlega lömuð á líkama og sál. Ég hef oft fundið fyrir kvíða, en aldrei neitt í líkingu við þetta. Mér fannst öllu vera lokið og allt það sem ég hafði unnið fyrir farið. Mig langar til þess að nýta menntun mína betur í starfi og ég held að Dale Carnegie námskeið geti hjálpað mér að komast út fyrir þægindahringinn. Mig langar að efla trúnna á sjálfa mig líka, að maður hafi eitthvað að gefa af sér.“

 

Screen Shot 2014-11-17 at 15.00.44

 Nafn: Sigríður Thors
Aldur: 31 árs
Hjúskaparstaða: Í sambúð og á tvö börn
Fyrri störf: Jógakennari og ballettkennari
Persónuleg kynning:

„Ég hef verið að vinna sem yoga- og ballett kennari síðastliðin tíu ár en lenti í alvarlegu bílslysi í ágúst 2011. Síðan þá hef ég eignast tvö börn og mest verið heimavinnandi. Ég hef komist að raun um að ég þurfi að breyta um starfsvettvang vegna bakmeiðsla þegar ég hef aftur vinnu. Ég hef einnig gengið með hugmynd um framtíðarstarf í maganum í langan tíma en ekki getað hrint henni í framkvæmd hingað til. Sú hugmynd í grófum dráttum er heildræn endurhæfing fyrir fólk sem hefur dottið út af vinnumarkaðinum af einhverjum ástæðum. Endurhæfingin myndi byggja á yoga, heilsusamlegum lífstíl og ýmsu öðru sem ég hef öðlast þekkingu á síðastliðin 12 ár.

Slysið sem ég lenti í hafði mikil áhrif á mig. Að neyðast til þess að endurhugsa starfsferilinn hefur verið ákveðin áskorun. Ég þarf á því að halda að byggja sjálfa mig upp og finna hugrekki til þess að breyta um vinnu. Byggja upp sjálfstraustið. Það sem er verið að kenna á námskeiðinu er eitthvað sem mun nýtast mér í því sem mig langar til þess að gera.“

Námskeiðið er nýhafið og við hlökkum til að heyra í þátttakendum fljótlega aftur.

Á Dale Carnegie námskeiðinu gefst þátttakendum kostur á að þjálfa upp örugga framkomu, samskiptahæfni og tjáningarhæfileika ásamt því að þróa leiðtogahæfileika. Markmiðið er að efla sjálfstraust og lífsviðhorf á jákvæðan og öflugan hátt.

DALE_merki

SHARE