Hvað á að gefa börnunum að borða í afmælinu?

Hvað á nú að bjóða krakkagríslingunum upp á í barnaafmælunum þetta árið? Þetta er spurning sem við spyrjum okkur öll að og engjumst yfir á einhverjum tímapunkti. Hér eru hugmyndir sem hægt er að blanda saman og nýta þegar stóri dagur barnsins bankar upp á. Við mælum með að þið klippið greinina út.

Pítsa. Þægilegt að panta, ódýrara að baka. Munið að börn í barnaafmælum eru eins og svangir úlfar svo það þarf að gera ráð fyrir ríflegu magni – ef þið ætlið að gera foreldrum gestanna þann greiða að sleppa því að gefa börnunum kvöldmat. Skerið bara litlar sneiðar.

Kaka. Það þarf að vera kaka. Munið að krakkar þurfa ekki mikið meira en skúffuköku með smartís þannig að ef tími gefst til er um að gera að skella í eina slíka, það er ódýrt og gott. Þau sem hafa gaman af skreytingum geta gert dúllerískökur sem eru líka skemmtilegar. Ef tíminn eða bökunarhæfileikarnir eru af skornum skammti er snilld að kaupa einhverja krúttlega köku af einhverju bakaríinu.

Rice Crispies eða kornflexkökur. Lítil fyrirhöfn og hægt að fá mikið fyrir lítið. Pottþétt uppskrift:
200 g dökkt súkkulaði eða ljóst og dökkt til helminga
1 dl síróp
100 g smjör
200 g Rice Krispies

Byrjið á því að setja súkkulaði, síróp og smjör saman í pott og bræða saman við meðalhita. Bætið Rice Krispies út í og blandið vel saman þar til allt er vel samlagað. Raðið formum á bakka og setjið u.þ.b. teskeið af blöndunni í hver form, meira ef formin eru stór. Það er þó sniðugt að hafa einmitt lítil form til þess að drýgja skammtinn. Einnig má setja blönduna í stórt form eða dreifa á bökunarpappír og kæla, skera síðan í litla ferninga. Vissulega umhverfisvænna en að nota formin.

3 msk. smjör
40 sykurpúðar
150 g Rice Krispies

Bræðið sykurpúða og smjör saman í potti eða örbylgjuofni og bætið Rice Krispies saman við. Setjið síðan í muffinsform eða dreifið í stórt form eða á bökunarpappír, kælið og skerið svo í teninga. Hér má leika sér með matarliti og gera alls kyns liti eða nota kökuskraut eða bræða súkkulaði og dreifa yfir. Hugmyndaflugið er gott veganesti í þessa uppskrift. Hægt er að lauma smávegis hollustu ofan í börnin með því að bæta fræjum og hnetum við.

Kökupinnar. Smá vesen og kannski ekki fyrir stór afmæli. En gerir mikið fyrir augað og bragðlaukana. Þetta er í raun auðvelt í framkvæmd en bara dálítil handavinna – bakið eða kaupið kökubotn, myljið hann niður og blandið kremi saman við. Búið til kúlur úr deiginu og raðið þeim á bökunarpappír og kælið. Bræðið súkkulaði og dýfið pinnanum fyrst í áður en þið stingið í kúluna til þess að pinninn festist. Kælið aftur áður en þið hefjist handa við að hjúpa og skreyta af hjartans list.

Skinkuhorn eða pítsusnúðar. Klassík sem klikkar ekki.

Ávaxtaspjót. Flott, girnileg og holl.

Grænmetisbakkar. Skerið niður gulrætur, gúrkur, blómkál, spergilkál, paprikur og hvað sem ykkur dettur í hug. Ágætt mótvægi við sykurbomburnar sem vanalega fylgja barnaafmælum.

Popp. Bara fyrir þá allra huguðustu – þið munið finna popp á stöðum sem þið vissuð ekki að væru til á heimili ykkar. Gera má alls konar skrautlegt popp með bræddu hvítu súkkulaði, kökuskrauti og matarlit.

Tortillapönnukökur með rjómaosti og skinku.
10 tortillur
hreinn rjómaostur
salsa
niðurskorin paprika
10 skinkusneiðar

Smyrjið tortillurnar með rjómaosti og salsa og setjið skinku og paprikuræmur ofan á. Rúllið tortillunum upp og skerið í munnbitastærðir.

Smápítsur. Ef það eru fá börn í afmælinu geta þau jafnvel fengið að gera eigin pítsu, það finnst þeim gaman og drepur tímann.

Pylsur í smjördeigi. Kokkteilpylsur vafðar inn í smjördeig með tómatsósu og sinnepi klikka aldrei.

 

Heimildir: Fréttatíminn

SHARE