Hvað ætlar þú að gera?

Hvað ætlar þú að gera þegar að ég segi þér hvernig mér líður í alvöru?

Getur þú tekið á móti þessum upplýsingum?
Getur þú brugðist við þeim án þess að gera ástandið verra?

Eða ertu að vona að ég segi bara að það sé allt í lagi þó við sjáum það klárlega bæði að það er alls ekki raunin? Hristum bara af okkur eitthvað óþægilegt „small talk“ og höldum áfram með lífið.

Hugsarðu með þér núna „auðvitað get ég brugðist vel við og auðvitað er ég tilbúin/nn til þess að heyra hvernig þér líður í alvörunni?“

En hvað ef ég sé ekkert annað í stöðunni en að deyja?

Staðan mín í dag er mjög góð, ég er andlega sterk og er að takast á við öll mín vandamál sem að ég hef barist við og falið í ó svo langan tíma.

Þannig að ég hef það í alvörunni bara frekar gott svona yfir heildina litið.

-En fyrir aðeins sex árum barðist ég við lífið harðar en nokkurn heilbrigðan heila grunar.

Fyrir sex árum reyndi ég að taka eigið líf.

Fyrir sex árum mistókst mér það,- oftar en einu sinni.

Fyrir sex árum leitaði ég mér aðstoðar, grátbað um aðstoð með allskonar leiðum og fyrir sex árum brást mér allt sem átti að standa sem fastast.

Fyrir sex árum aðstoðaði aðstoðin mig ekki, heldur lét mér líða verr. Vandamálin mín voru sum mjög stór og alvarleg, en þessi litlu sem að bættust ofan á hauginn og ýttu mér hvert af öðru dýpra og dýpra niður, voru of ómerkileg og hreinlega hlægileg. Það voru vandamálin sem að ég þurfti að fá aðstoð með.

Af hverju er ég að skrifa þennan pistil? Ekki búin að skrifa í mjög langan tíma því að ég hef verið á fullu í svo mikilli vinnu og svo ofan á það skrifandi eitthvað sem er svo langt út fyrir uppskriftina af hinum pistlunum mínum?

– Af því að ég fékk rennandi blauta tuskuna í andlitið. Ég tók mér tíma og virkilega horfði í kring um mig.
Ég sá að á þessum sex árum hafði ó svo lítið breyst!
Samfélagið er ennþá að bregðast og fagfólkið er enn að bregðast.

SEX ÁRUM SEINNA!

Jafnvel þótt að umræðan hafi aukist, og samfélagið orðið örlítið meðvitaðara þá bregst það enn.

Ert þú tilbúin/n til þess að bregðast rétt við þegar að einhver segir þér hvernig honum líður í alvörunni?

Gerir þú þér grein fyrir því hvað þarf lítið til þess að fylla mælinn og koma manneskju algjörlega á botninn? Og hversu „lítið“ vandamálið þarf að virðast fyrir þér þó það geti skipt annan svakalega miklu máli?

Þegar þessi hugsun, að taka líf sitt er komin inn í kollinn á manni þá þarf nefnilega ekki mikið til þess að hrinda manni enn neðar, hvað þá á botninn!

Hlutir jafn „ómerkilegir“ og;

  • Sjálfsalinn virkaði ekki, akkúrat þegar að ég kom að honum.. auðvitað var hann bilaður akkúrat af því að ég kom.. ég á ekki skilið að fá mér neitt.
  • Það andvarpaði einhver ókunnugur í sama rými og ég.. manneskjan veit hversu ömurleg ég er. Hún hefur heyrt sögurnar og veit eflaust fleiri sögur en ég sjálf, hvað veit manneskjan? Hvað gerði ég núna?
  • Það svaraði mér enginn almennilega þegar ég bauð góðan daginn, það er öllum sama um mig. Ég skipti engan nægilega miklu máli.

Hvernig ætlar þú að bregðast við?

Ætlar þú að segja mér hversu ótrúlega lítið vandamál þetta er? Að það sé náttúrulega út í hött að manneskjan hafi andvarpað útaf mér? Líklegast sé að hún hafi hreinlega bara verið að hugsa um sín eigin vandamál? Að það sé náttúrulega bara tilviljun að sjálfsalinn hafi verið bilaður og að fólk hafi bara verið rosalega upptekið af sínu þegar að ég mætti og bauð góðan daginn?

Eða ætlarðu að hlusta á mig, Segja mér að þér finnist hræðilegt að mér líði svona illa, þakka mér fyrir að treysta þér fyrir þessu, segja mér að þú sért alltaf til staðar fyrir mig og að ekkert vandamál sé of lítið til þess að geti valdið skaða og að þú ætlir alltaf að búa til tíma fyrir þau?

Ert ÞÚ tilbúin/n til þess að skilja að það þarf ekki meira?

Plís, gefðu mér augnablik af tímanum þínum, bara svo að ég sjái að þú hafir áhuga á því að gefa mér hann, að ég skipti þig einhverju máli.

Plís segðu mér hvað þér finnst í alvörunni! – ekki segja mér að þetta sé ekkert mál.

PLÍS, ekki þrýsta á mig! Ég veit að ég er ótrúlega erfið oft, ég veit að það er erfitt að gefa mér kjark og trú á því að þetta muni lagast og ég veit að það er erfitt að umgangast mig þegar að ég sé fátt annað en hversu ömurlegt allt er.

En þú veist ekki hvað það er mér mikilvægt, þú skilur ekki hvað það skiptir mig öllu máli að ég eigi þennan stað hjá þér, þennan tíma sem þú gefur mér. Það eru þessir hlutir sem að eru rökin á móti sjálfsvígshugsununum mínum – þú, sem að gafst mér tímann þinn, faðmaðir mig og tókst í hendina á mér.
Ég þarf bara smá tíma til þess að finna það, svo fer ég að þurfa meira af því og þá er ég tilbúin til þess að fá aðstoðina.

Gerðu það fyrir mig, vertu tilbúin/n!

Því að viðbrögð okkar til þeirra sem að eru að berjast svona fast við lífið skipta öllu máli. Í hvert einasta skipti sem að aðstoðin aðstoðar okkur ekki, sökkvum við dýpra – og einn daginn skellur einhver á botninn og ratar ekki sjálfur upp. Hver ætlar þá að bregðast við?

Ég er ekki að segja að það sé einhver ein uppskrift af því hvernig maður bregst rétt við, en fyrir sex árum voru „pínu litlu“ vandamálin mín sem að náðu að ýta mér á botninn gerð að engu, af fagfólki og flestum sem ég leitaði til.

Ég þorði ekki að segja frá því hvað það var sem ýtti mér neðar og neðar- því ég vissi það alveg sjálf að þetta voru vandamál sem að „meikuðu engann sens.“ Það var nóg fyrir fólk að benda og segja „þú ert bara með þunglyndi, það eru margir með þunglyndi“ – það var enginn tilbúinn til þess að viðurkenna þessi litlu vandamál mín og segja mér að það væri allt í lagi að mér liði svona, við gætum lagað þetta!

Í fullri hreinskilni var þrjóskan mín og hræðslan mín við að særa aðra það eina sem að hélt mér lifandi í nokkurn tíma, alveg þar til að ég varð ólétt af eldra barninu mínu og ég kom mér yfir verstu hugsanirnar með þvi að viðurkenna að ég treysti bara engum öðrum fyrir henni. Þær hugsanir koma mér upp af botninum. Ég get ekki hugsað mér að einhver annar þurfi að hugsa öðruvísi en ég geri um stelpurnar mínar og þá man ég allt hitt, allt hitt sem að ég lifi fyrir og ég er ánægð með. Fyrir það lifði ég á litlu augnablikunum sem að fólk gaf mér meðal annars og tilfinningunni sem að ég fékk þegar að einhver var glaður í kringum mig og útaf mér.

En ég gat ekki farið til fagfólks með þetta oftar, ég var brennd. Viðbrögðin sem ég fékk brenndu mig inn að beini og ég gat ekki hugsað mér að fara til þeirra framar. Ég þurfti bara að finna góðar tilfinningar, eiga gott spjall, eiga góða stund með skemmtilegum vin, finna að ég var vel metin af einhverjum, ég varð að laga þetta sjálf.

Það var samt ekkert sjálfsagt, fólk kunni ekki að svara mér þegar að mér sagðist ekki líða nógu vel. Þeim sem ég sagði satt tóku mig ekki alvarlega af því að ég sagði of mikið, ég var of opin um tilfinningarnar mínar til þess að geta fallið undir andlit bíómyndaþunglyndissjúklings, þeir nefnilega tala aldrei við neinn um vandamálin sín, hafa hljótt og setja upp afbragðs góða grímu þar til að *púff* þeir annað hvort finnast látnir eða inni á geðdeild.

Ég reyndi bæði, setti upp brilljant grímu og hefði átt að fá Óskarsverðlaunin fyrir leik minn í „hamingjusama líf heilbrigðu Önnu“, en gríman varð of þung, datt af og ég lá hálf meðvitundarlaus inni á baðherbergi að reyna að deyja í friði.. Ég fékk það sem betur fer ekki. Eftir það fór ég inn á geðdeild, það var dásamlegt að fá að vera þar að því leitinu til að ég fékk tíu daga til að viðra á mér alvöru andlitið, engin gríma í tíu daga.

Samt sem áður, var ég þarna inni og litlu hlutirnir sem drógu mig niður voru ekki nógu stórir til þess að skipta svona miklu máli, þetta var bara bull! Það hlýtur að þurfa eitthvað mun meira til þess að fá fólk til að vilja deyja. Það var liðinn of langur tími frá því að ég var beitt kynferðislegu ofbeldi til þess að ég næði botninum fyrst þá, það var náttúrulega bara alveg fáránlegt að það hafi verið nóg að einhver hafi andvarpað eða ekki boðið mér góðan daginn. Það hlaut alltaf að þurfa að vera eitthvað svakalegt sem að kom upp á rétt áður en að einstaklingur færi út í að reyna sjálfsmorð. Mitt var ekki nóg.

En þegar að ég sá hversu djúpt ég hefði sært og hversu hræðilega ég hefði látið fjölskyldunni minni líða tók ég upp næstu grímu, það gekk ekki vel. Ég losnaði aldrei við tilfinninguna um að ÉG væri að bregðast þeim, alveg sama hvað ég ríghélt í grímuna mína sást alltaf hvað ég var virkilega veik og af því að ég hætti ekki að vera veik fannst mér ég vera að bregðast öllum. „Fake it untill you make it“ virkaði ekki.

Ég barðist og barðist eins mikið og vel og ég gat þar til að ég fann lausn og lausnin var ekki bara fagfólk.

Lausnin var að finna ást, fá tíma þeirra sem að ég elskaði, að finnast ég ómissandi og að segja hvernig mér leið í alvörunni. Lausnina fann ég hjá þeim sem ég elska og umgengst. Síðan kom fagfólkið.

Þess vegna spyr ég, í fullri einlægni;

Ert þú tilbúin/n til að bregðast við?
Ert þú tilbúin/n til þess að segja hvernig þér líður í alvörunni?

Ert þú tilbúin/n til þess að þetta málefni hætti að vera tabú? Því að ég er það.

Til þín sem að ert á botninum, – Ég veit, ég veit hvað þetta er sárt og ég er tilbúin til þess að gefa þér tímann minn. Þér er velkomið að senda mér línu á mammaspamma1@gmail.com og ég skal hlusta á þig.

SHARE