Hvað er áfallahjálp?

Áfallahjálp er hugtak sem hefur verið notað í rúman áratug á Íslandi. Áfallahjálp er skammvinn fyrirbyggjandi íhlutun sem veitt er þeim sem orðið hafa fyrir hættu sem ógnar lífi eða limum og þeim sem verða vitni að ofbeldi, líkamsáverkum eða dauða. Slíkri reynslu fylgir oft mikill ótti, hjálparleysi eða hryllingur sem setið getur eftir í huga fólks og valdið ýmis konar viðbrögðum m.a. svokölluðum áfallastreituviðbrögðum (acut stress reaction). Mikilvægt er fjölskylda og vinir styðji þann sem orðið hefur fyrir áfalli því það er yfirleitt besta áfallahjálpin.

Hjálparleysistilfinning

Hjálparleysistilfinning hefur oft djúpstæð áhrif á þá sem hafa mikla þörf fyrir að hafa stjórn á aðstæðum en það er einmitt það sem fer úr böndunum við áföll. Það sem greinir áföll frá sorg eða kreppu er að áföll eru yfirleitt skammvinnir atburðir; standa yfirleitt stutt, á meðan kreppa sem fylgir alvarlegum veikindum, skilnaði eða missi stendur lengi yfir. Í slíkum tilvikum er ekki beinlínis um ákveðinn atburð að ræða heldur tímabil sem markast af miklum breytingum í lífi einstaklingsins og því ljóst að viðtöl eða stuðningur til lengri tíma er nauðsynlegur en ekki skammvinn íhlutun eins og áfallahjálp.

Sjá einnig: 6 einkenni hjartaáfalls hjá konum

Áfall

Áfall hefur verið skilgreint sem sterk streituviðbrögð í kjölfar ákveðinna óvæntra atburða. Þetta eru atburðir eins og náttúruhamfarir (jarðskjálftar, snjóflóð, óveður, flóð), slys (bílslys, sjóslys, flugslys, iðnaðarslys). Aðeins lítill hluti þeirra sem í slíkum áföllum lenda veikjast af sálrænum kvillum. Langvinn eftirköst eru þó líklegri, eftir áföll af manna völdum t.d. ofbeldi (árásir, rán, nauðgun, hermdarverk). Þungi áfallsins hefur einnig áhrif á hvort áfall hefur langvinn eftirköst þ.e. ef tengslum við aðra eða öryggistilfinningu er ógnað t.d. að sjá ættingja farast eða upplifa nánasta umhverfi ekki lengur öruggt.

Langvarandi ofurálag

Langvarandi ofurálag eins og heimilisofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, einelti, (stríðsátök og fangabúðavist) getur valdið sams konar viðbrögðum. Sálræn vandamál í kjölfar langvinns ofurálags geta orðið mun flóknari og í slíkum tilvikum getur einstaklingur þurft á langtíma sálfræðimeðferð að halda.

Sjá einnig: Þetta þarftu að vita um hjartaáföll – Konur eru ólíklegri til að fá verk fyrir brjóstið þegar þær fá hjartaáfall

Áfallahjálp er ekki meðferð

Áfallahjálp er ekki meðferð því það er ekki sjúkdómur að upplifa áfallastreituviðbrögð alveg eins og að það er ekki sjúkdómur að vera í sorg. Fólk þarf aðstoð við að skilja líðan sína og fræðslu um hvernig best er að takast á við þessi sterku viðbrögð. Ef þörf er á meiri aðstoð en sálrænni skyndihjálp frá nánustu ættingjum og vinum er hægt að leita til fagfólks sem veitt getur einstaklingum eða hópum sérhæfðan sálrænan stuðning. Slík viðtöl miða að því að aðstoða einstaklinginn við að skoða og fá leiðsögn við að vinna úr þeim hugsunum, tilfinningum og viðbrögðum sem sitja eftir í kjölfar atburðarins. Farið er í gegnum atburðinn, hann skoðaður með einstaklingnum, honum veitt fræðsla og lagt mat á áhættuþætti sem hugsanlega gætu valdið því að einstaklingurinn þurfi frekari aðstoð.

Tekið úr grein eftir Margréti Blöndal hjúkrunarfræðing á Áfallamiðstöð LSH sem birt er á síðu almannavarna. Slóðin er hér

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE