Blöðrubólgu er skipt í annars vegar bráða blöðrubólgu og hins vegar langvinna (króníska, e.chronic) blöðrubólgu.
Bráð blöðrubólga
Bráð blöðrubólga er mjög algeng og fá konur hana mun oftar en karlar. Jafnvel er talið að allt að 70% kvenna hafi einhvern tíma fundið fyrir einkennum bráðrar blöðrubólgu. Sennilega má rekja orsökina fyrir hærri tíðni meðal kvenna til þess að þær hafa mun styttri þvagrás en karlar þó fleiri atriði geti komið til. Konur sem eru að byrja á svokölluðu breytingaskeiði, þar sem kvenhormónið östrógen minnkar í blóðinu, fá gjarnan einkenni frá þvagrás. Ástæða þessa er sú að þekjan í þvagrásinni og blöðrubotni er háð östrógenum.
Orsök bráðrar blöðrubólgu eru oftast bakteríur sem eiga uppruna sinn í ristli og endaþarmi eins og E.coli, Klebsiella, Proteus mirabilis og Streptococcus faecalis. Endurteknar blöðrubólgur geta verið af sama stofni sýkla eða frá öðrum bakteríum. Aðrir sýklar en frá meltingarvegi geta líka valdið sýkingum eins og Herpes virus hominis, Chlamydia og jafnvel lekandabakterían.
Sýking verður þegar baktería kemst upp þvagrásina og nær að yfirvinna viðnám sem þar á að vera fyrir hendi. Oftast er orsökin fyrir því að viðnámið minnkar óþekkt en þó geta sýkingar í efri öndunarvegi, erting við samfarir og fleira valdið því að bakteríurnar ná sér á strik. Blöðrubólgueinkenni er hægt að fá vegna efna sem eru borðuð eða berast að utan í þvagrásina.
Sýkillinn sem veldur blöðrubólgu berst sem sagt upp þvagrásina og upp í þvagblöðru þar sem hann veldur bólgubreytingum í blöðruþekjunni svo hún verður rauð, bólgin og aum. Við þetta eykst tilfinning fyrir þvaglátum þannig að endurtekin þvaglát eiga sér stað þrátt fyrir að blaðra sé aðeins hálf af þvagi. Þegar lengra líður á verður þvagið gruggugt og lyktar jafnvel illa. Einnig geta fylgt verkir rétt fyrir ofan lífbein.
Ef ekkert er að gert getur slík sýking farið upp þvagleiðarana í átt að nýrum og valdið þar alvarlegri sýkingu. Berklar geta einnig farið í þvagfæri og valdið einkennum, til dæmis frá þvagblöðru.
Sjá einnig: Veirusýkingar sem geta borist með mat og drykk
Langvinn blöðrubólga
Margir sjúklingar fá endurtekna blöðrubólgu vegna sama sýkilsins, sem upprunninn er frá ristli. Sjúklingum eru stundum gefin breiðvirk sýklalyf vegna þessa (og stundum vegna annarra sýkinga) en það getur leitt til þess að erfiðara verður að eiga við sýkilinn með sýklalyfjum. Jafnframt geta konur fengið viðvarandi sýkingu í fæðingarveg og sveppasýkingu vegna endurtekinnar notkunar sýklalyfja. Læknar geta því oft staðið frammi fyrir erfiðu vandamáli við meðhöndlun.
Það er mikilvægt fyrir blöðruna að tæma sig reglulega þannig að sýklar nái ekki að fjölga sér nægilega mikið. Aukin vatnsdrykkja eða vökvainntaka getur þess vegna hjálpað fólki við að losa sig við sýklana. Ýmsir veikleikar í blöðrunni sem orsakast af sykursýki eða æxlum geta minnkað viðnám hennar gegn sýklum.
Til eru margar tegundir langvinnrar blöðrubólgu sem verða ekki taldar upp hér. Mikilvægt er þó að muna eftir að berklar geta skotið upp kollinum og valdið blöðrubólgueinkennum. Æxli í blöðru geta einnig orsakað sýkingu að hluta til og ef blóð sést í þvagi þarf að rannsaka það nákvæmlega.
Meðfæddir gallar geta einnig valdið sýkingum og ber þá sérstaklega að nefna svokallað „bakflæði“ frá blöðru upp í þvagleiðara og til nýrna hjá börnum. Þvagfærasýkingar hjá börnum skal rannsaka og meðhöndla sérstaklega og ber að taka slíkt alvarlega.
Frekari fróðleik um blöðrubólgu má meðal annars finna á Doktor.is
Lestu fleiri áhugaverðar greinar á