Þótt flasa sé ekki smitandi og sjaldnast alvarlegt vandamál getur það samt sem áður verið afar hvimleitt. Það góða er að oftast er auðvelt að halda einkennum niðri. Daglegur hárþvottur með mildu sjampói dugar oftast í vægum tilfellum og ef það dugar ekki til eru til sérstök flösusjampó.
Einkenni flösu eru oftast auðþekkt, hvítar húðflögur sem liggja í hárinu og flögra niður á axlir og í sumum tilfellum fylgir kláði í hársverði. Stundum versnar flasan á haustin og veturna en skánar á sumrin.
Skán í hársverði er algengari hjá ungbörnum. Þá er um að ræða skán eða gulleitt hrúður sem sést vel í hársverði barna. Þetta hreinsast yfirleitt af sjálfu sér þegar barnið er um 3 ára.
Sjaldnast er ástæða til þess að fara til læknis vegna flösu. Hins vegar er ráðlegt að heyra í lækni ef búið er að reyna flösusjampó í nokkrar vikur og kláðinn er enn til staðar og eins ef hársvörðurinn verður rauður eða bólginn. Þá er hægt að greina með vissu hvort um flösu sé að ræða eða eitthvað annað
Helstu orsakir:
Þurr húð er algengasta orsökin. Húðflögurnar eru þá oftast minni um sig og minni húðfita. Ef þetta er orsökin er líklega þurr húð á fleiri stöðum líkamans eins og á höndum og fótum.
Feit og ert húð (seborrheic dermatitis). Er næst í röðinni yfir algengar ástæður og einkennist af rauðri og fitugri húð með hvitum eða gulleitu hrúðri. Sjúkdómsins getur gætt í hársverði sem og öðrum svæðum sem hafa mikið af fitukirtlum eins og augabrúnir, hliðarnar á nefinu, bak við eyrun, bringa, nári og holhönd.
Að þvo ekki hárið nægilega oft. Við það geta húðflögurnar safnast upp.
Önnur húðvandamál eins og exem eða psoriasis
Sjá einnig: Unglegri húð með íslenskum vörum
Sveppasýking (malassezia). Malassezia er hluti af náttúrlegri örveruflóru í hársverðinum en veldur ertingu hjá sumum sem aftur veldur offfjölgun á húðfrumunum. Þessar aukafrumur deyja og detta út sem flasa. Ástæðan fyrir því hvers vegna sumir verða fyrir þessu er ekki þekkt
Óþol fyrir hárvörum. Þrátt fyrir að nauðsynlegt sé að þvo hárið reglulega með sjampói er líka hægt að gera of mikið af því og það eitt og sér getur valdið ertingu í hársverðinum. Ofnotkun á hárvörum geta einnig valdið þessu
Flestir geta fengið flösu er þó er ýmislegt sem eykur líkurnar:
Aldur: Flestir fá flösu á unglingsaldri og eru með einkenni fram á miðjan aldur. Það þýðir ekki að fólk komið á miðjan aldur geti ekki fengið flösu og hjá sumum varir vandamálið alla ævi.
Að vera karlkyns: Talið er að karlhormón eigi einhvern þátt í myndun flösu auk þess sem karlmenn hafa meira af fitukirtlum í hársverðinum
Feitt hár og hársvörður: Malassezia lifir á olíunni í hársverðinum. Þannig verður meira af honum ef það er mikið af olíunni.
Ofnotkun á hárvörum: Of mikil notkun á hárvörum eins og til dæmis hárgeli. Það getur safnast upp í hársverðinum og aukið fituframleiðsluna
Streita: Streita hefur almenn áhrif á líkamann og starfssemi hans. Þannig geta einkenni flösu tekið sig upp eða versnað í miklu álagi.
Léleg næring: Skortur á zinc, B vitamíni og náttúrlegri fitu
Ýmsir sjúkdómar: Orsökin er ekki þekkt en fullorðnir með ýmsa taugasjúkdóma svo sem Parkinsons eru í meiri áhættu. Streita og álag í kjölfar alvarlegra sjúkdóma svo sem hjartaáfalla, heilablóðafalla og þeir sem eru með skert ónæmiskerfi eru í aukinni áhættu á að fá flösu.
Meðferð
Það þarf þolinmæði við að meðhöndla og losna við flösu. Til eru sérstök flösusjampó en stundum þarf að reyna nokkrar tegundir áður en það niður á það sem hentar best.
Þegar góðum árangri hefur verið náð er hægt að draga úr notkuninni á flösusjampóinu niður í tvisvar til þrisvar í viku og nota venjulegt sjampó þess á milli. Stundum er eins og flösusjampóið hætti að virka eins vel og þá er gott að geta skipt á milli tveggja tegunda. Mikilvægt er að nudda sápunni vel í hársvörðinn og láta liggja í a.m.k. 5 mín svo efnin nái fullri verkun.
Ef búið er að reyna sjampómeðferð í nokkrar vikur og einkennin eru ennþá veruleg er mælt með að ráðfæra sig við lækni.
Tea tree olia sem er upprunnin úr áströlsku jurtinni Melaleuca alternifolia hefur í gegnum tíðina verið notuð vegna sótthreinsandi áhrifa. Þetta efni er gjarnan í flösusjampói og virist koma að gagni í baráttunni við flösuna. Varast ber þó að sumir hafa myndað ofnæmi eða óþol gegn þessari olíu.
.
Höfundur greinar:
Guðrún Gyða Hauksdóttir, hjúkrunarfræðingur
Höfundur er hjúkrunarfræðingur