- Hjartað dælir blóðinu um líkamann. Vinstri slegill hjartans dælir súrefnisríku blóði eftir slagæðum til vöðva og líffæra líkamans. Þegar blóðið hefur runnið í gegnum vefina og losað súrefni fer það í bláæðarnar og skilast til hægri helmings hjartans. Þaðan er því dælt til lungnanna þar sem koltvísýringurinn er skilinn út og súrefni tekið upp í staðinn. Úr lungunum fer blóðið til vinstri helmings hjartans og hringrásin hefst á ný
- Blóðþrýstingurinn er háður samdráttarkrafti (dælukrafti) hjartans.
- Blóðþrýstingurinn hækkar þegar blóðinu er dælt um slagæðarnar með meiri þrýstingi en venjulega.
- Blóðþrýstingurinn er skráður með tveimur gildum. Ef blóðþrýstingurinn er 120 yfir 80 er hann táknaður með 120/80.
- Fyrri talan er slagbilsþrýstingur – efri mörk- (systóla). Það er þrýstingurinn sem er í slagæðunum þegar hjartað dælir blóðinu út.
- Seinni talan er lagbilsþrýstingur -neðri mörk- (diastóla). Það er þrýstingurinn í slagæðunum þegar hjartað slakar á milli tveggja slaga og fyllist blóði.
Hvað er of hár blóðþrýstingur?
- Ef blóðþrýstingurinn mælist hærri en 140/90 í hvíld er um að ræða háþrýsting.
Af hverju verður blóðþrýstingurinn of hár?
- Oftast er orsökin óþekkt. Þá er talað um fyrstu gráðu háþrýsting.
- Í einstaka tilfellum má greina orsök fyrir hækkuðum blóðþrýstingi og þá er um að ræða annarrar gráðu háþrýsting. Það sem veldur slíkum háþrýstingi eru m.a. krónískir nýrnasjúkdómar, hormónatruflanir og æxli.
Sjá einnig: Bjartsýni getur bætt heilsu þína til muna
Hvernig er blóðþrýstingurinn mældur?
- Uppblásanlegum belg er komið fyrir utan um upphandlegg og er lofti dælt í hann. Um leið er sett hlustunarpípa í olnbogabótina og hlustað eftir blóðflæði. Þegar þrýstingurinn er orðinn mikill í belgnum lokast fyrir blóðflæðið í slagæðinni og enginn púls finnst. Þá er örlitlu lofti hleypt úr belgnum og þegar heyrist í blóðflæðinu (púls) er komið gildi fyrir slagbilsþrýstinginn (efri mörk). Við áframhaldandi lofttæmingu minnkar þrýstingurinn utan frá og slagæðin nær að opna sig til fulls. Þá heyrist ekkert í blóðflæðinu og skráð er gildi lagbilsþrýstings (neðri mörk).
- Einnig er hægt að mæla blóðþrýsting með sjálfvirkum blóðþrýstingsmæli. Slíka mæla er gott að nota heima við, því þá er mælingin gerð við eðlilegar kringumstæður.
- Þekkt er að blóðþrýstingurinn geti mælst ranglega hækkaður á heilsugæslustöð/sjúkrahúsi þar sem kringumstæðurnar eru framandlegar og viðkomandi verður fyrir streitu. Þetta nefnist „hvítsloppafælni“ (White coat syndrome). Þess vegna er blóðþrýstingurinn mældur nokkrum sinnum í viðtalinu.
Hver eru einkennin?
Lítillega hækkaður blóðþrýstingur hefur yfirleitt engin einkenni í för með sér. Ef viðkomandi finnur fyrir svima, er þreyttur eða taugaspenntur getur það verið merki um hækkaðan blóðþrýsting. Einkenni alvarlegri háþrýstings geta verið:
- höfuðverkur og þreyta.
- dofi og stingir í höndum og fótum.
- blóðnasir, blóð í uppgangi.
- andþyngsli.
Hverjir eru í áhættuhóp?
Allir geta fengið of háan blóðþrýsting en ákveðnir áhættuþættir eru vel þekktir:
- fjölskyldusaga um hjarta- og æðasjúkdóma t.d. háþrýsing og kransæðastíflu
- offita
- reykingar
- sykursýki
- nýrnasjúkdómar
- ofneysla á áfengi
- feitt og saltað fæði
- lítil hreyfing
- hátt kólesteról í blóði
- lyf
Sjálfshjálp
- Mæla skal blóðþrýstinginn reglulega ef margir ættingjar eru með of háan blóðþrýsting. Þá er hægt að meðhöndla hann strax þ.e. áður en fylgikvillar koma fram.
- Breyttur lífsstíll: Hætta að reykja, halda kjörþyngd. Hreyfa sig reglulega, draga úr áfengisneyslu, borða fjölbreytt, fitulítið og saltsnautt fæði, forðast streitu og stunda slökun.
- Ef þörf er á lyfjameðferð verður hún sennilega ævilöng. Ekki má hætta lyfjameðferðinni án samráðs við lækni. Þótt sjúklingi líði vel án lyfja getur hár blóðþrýstingur og afleiðingar hans orðið til vandræða seinna meir.
Hvað getur læknirinn gert?
- Greint áhættuþætti og gefið ráðleggingar um breyttan lífsstíl sem stuðla að lægri blóðþrýstingi.
- Gefið blóðþrýstingslækkandi lyf og stjórnað lyfjameðferð.
Hvað getur háþrýstingur haft í för með sér?
Æðakölkun, kransæðastíflu, hjartabilun, nýrnabilun, blindu og/eða heilablæðingu.
Framtíðarhorfur
- Hægt er að draga úr tíðni fylgikvilla með breyttum lífsstíl og lyfjameðferð.
- Ef háþrýstingur er ekki meðhöndlaður minnka lífslíkur viðkomandi vegna hugsanlegra fylgikvilla sem taldir voru upp hér fá undan.
Fleiri heilsutengdar greinar má finna á
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.