Þegar þú ert mamma þá eru stórar líkur á því að þú heyrir nokkrum sinnum á dag “mamma, hvað er í matinn?” eða þannig er það að minnsta kosti með mín börn. En viltu vita hvernig ég losnaði við þessa spurningu? Ég læt upp matseðill fyrir hverja viku, prenta út og hengi á korktöflu sem ég er með í eldhúsinu. Ég þurfti svo nokkrum sinnum að segja við þau “kíktu bara á planið” og núna í staðinn fyrir að spyrja mig hvað sé í matinn þá kíka þau bara einfaldlega á töfluna.
En svo er það annað vandamál, hvað á að setja á planið? Ég elska þessi prik sem fást í Tiger, og notaði merkjavélina (label maker) til að setja ca. 40 uppáhalds réttina mína á svona prik. Svo málaði ég endana á prikunum eftir því hvort að rétturinn flokkaðist sem kjöt, fiskur eða eitthvað annað. Þannig, ef að mig vantar fiskihugmynd þá dreg ég prik með grænum enda. Einfalt ekki satt? Og sparar mér töluverðan hausverk.
Ég heiti Kristbjörg og ég er 2 barna móðir sem elskar föndur, að skapa með höndunum, að búa til eitthvað úr engu og að reyna að auðvelda mér lífið með því að skipuleggja, skipuleggja, skipuleggja.