Hvað er kviðarholsspeglun?

Hvað er kviðarholsspeglun?

  • Röntgen- og ómskoðanir geta sýnt ýmsa dulda kvilla í kviðarholi, en slíkar útvortis rannsóknir eru takmörkunum háðar. Augljóslega er hægt að fá mun skýrari mynd af aðstæðum ef hægt er að skoða innanfrá, eins og gert er í magaskoðun.
  • Áður fyrr var fólk alltaf skorið upp ef skoða þurfi kviðinn á því. Í dag er oft hægt að láta kviðarholsspeglun nægja.

Hvernig er kviðarholsspeglun framkvæmd?

  • Tilgangur skoðunarinnar er til dæmis að skoða lifrina, þarmana, og hjá konum líffærin í neðra kviðarholi, gegnum fingurþykkan málmhólk sem búinn er ljósi og skoðunarbúnaði og er stungið gegnum lítinn skurð við naflann.
  • Fyrst er kviðarholið blásið upp með koltvísýringi til að fá betri yfirsýn.
  • Þetta er gert undir svæfingu, þannig að það er sársaukalaust.

Hvaða gagn er af kviðarholsspeglun?

  • Ef skoðunin sýnir fram á breytingar sem krefjast skurðaðgerðar, er hægt að framkvæma hana beint í kjölfar kviðarholsspeglunarinnar.
  • Ef kviðarholsspeglun sýnir fram á að skurðaðgerð sé óþörf, hefur þér verið hlíft við uppskurði.
  • Einnig kemur fyrir að hægt er að gera minniháttar aðgerðir gegnum kviðsjána. Til dæmis eru ófrjósemisaðgerðir nær eingöngu framkvæmdar gegnum kviðsjá nú til dags. Hægt er að stinga á og opna vatnsblöðrur á eggjastokkum. Einnig má losa um samgróninga.

Hvaða kostir eru við kviðarholsspeglun?

Kviðarholsspeglun er mun minna inngrip en opin skurðaðgerð sem gerir það að verkum að fólk er fljótara að jafna sig, oft getur fólk farið heim til sín samdægurs ef vel gengur. Hins vegar, ef þú þarft á uppskurði að halda, getur þú reiknað með að vera inniliggjandi í nokkra daga.

 

Fleiri heilsutengdar greinar má finna á doktor.is logo

SHARE