Hvað er þetta magnesíum?

Almennt um magnesíum

Magnesíum er fjórða algengasta efnið í líkamanum. Þar eru um það bil 25 g af magnesíum, helmingur í beinunum en hinn helmingurinn deilist á vöðva og aðra mjúka vefi.

Hvernig verkar magnesíum?

Magnesíum er samþætt fleiri en 300 ensímum sem eiga hlut að orkubúskap líkamans, prótínsamruna og kjarnsýruefnaskipta. Magnesíum gegnir líka mikilvægu hlutverki við taugaboðsendingar til vöðva og við hjartsláttarstjórnun.
Magnesíum er einnig nauðsynlegt til að halda uppi efnaskiptum líkamans svo að starfsemi vöðva og hjarta gangi eðlilega. Magnesíum er notað í lyf og bætiefni við meðhöndlun á magasári (sýrubindandi) og sem hægðalyf.

Hvaða fæða inniheldur magnesíum?

Magnesíum er í allri fæðu en einkum þó í eftirtöldum:

  • matkornmeti
  • grænmeti
  • kjöti
  • hnetum og möndlum.

Grænmeti svo sem salat er sérstaklega magnesíumríkt.

Hvað má taka mikið af magnesíum?

Dagleg þörf fullorðinna karla fyrir magnesíum er um það bil 400 mg en 310 mg fyrir konur. Drengir á kynþroskaaldri, barnshafandi konur og konur með börn á brjósti þurfa meira magnesíum en aðrir. Almenn neysla er um það bil 3-400 mg á dag.

Það er fátítt að menn fái of stóran skammt af magnesíum, nýrun sjá um að skilja út allt umframmagn. Svo fremi sem þau starfi eðlilega.

Ýmis hormón stýra útskiljuninni. Mikilvægustu hormónarnir eru kalkkirtilshormónið (PTH) og aldósterón.

Hvaða sjúkdómar eða vandamál hafa verið meðhöndluð með magnesíum

Algengast er að gefa magnesíum við hægðatregðu, en það hefur áhrif til losunar. En það eru fjöldamargir aðrir sjúkdómar sem hefur verið fjallað um að það geri gagn sem viðbót við meðferð og má þar nefna sem dæmi;

  • Hjartsláttaróregla en talið er að Mg2+ stabiliseri hjartavöðvann
  • Magabólgum
  • Meðgöngueitrun
  • Kvíða
  • Síþreytu
  • Vefjagigt (Fibromyalgia)
  • Vöðvakippum í fótum (restless legs syndrome)
  • Nýrnasteinum
  • Fyrirtíðaspennu
  • Asthma

Fjölmargir aðrir sjúkdómar eru nefndir en það vantar rannsóknir til að staðfesta virkni og þá sérstaklega skammtastærðir ef beita á þvi sem fyrstu meðferð.

Hverjum er hættast við magnesíumkorti?

Það geta verið margar ástæður fyrir magnesíumskorti.

Skorturinn getur stafað af sjúkdómi og þá kemur líka upp skortur á öðrum steinefnum (t.d. kalsíum og kalíum).

Sjúkdómar sem geta valdið magnesíumskorti eru til dæmis;

  • Bólgusjúkdómar í ristli (Crohn, Colitis Ulcerosa)
  • Langvinnur nýrnasjúkdómur
  • Kalkkirtlavandi
  • Áfengisvanda

Orsakanna gæti verið að leita í:

  • Aldri (þeir sem eru eldri eru með minni upptöku)
  • langvinnum niðurgangi (hamlar eða hægir á upptöku magnesíums um þarmana)
  • svelti (t.d. vegna megrunar)
  • inntöku sýklalyfja
  • magasýruhemla (PPI)
  • þvagræsandi lyfjum

Hvernig lýsir magnesíumskortur sér?

Vægur magnesíumskortur getur oft verið einkennalaus. Ef skorturinn er alvarlegur geta einkennin verið á ýmsa vegu eða líkst þeim einkennum sem koma fram við skort á öðrum steinefnum.

Eiginleg einkenni magnesíumskorts líkjast mjög þeim einkennum sem koma fram við kalsíumskort eins og taugatruflanir, skjálfti, vöðvaþreyta, krampi og andlegt ójafnvægi. Önnur einkenni geta t.d. verið minnkuð matarlyst, ógleði og þreyta.

Hvernig er ráðin bót á magnesíumskorti?

Mest er um vert að finna orsök skortsins og bæta úr honum. Síðan er að taka inn nýtt magnesíum. Vægan skort má bæta með því að neyta meira magnesíums í matnum en ef skorturinn er alvarlegur verður að leggja sjúklinginn inn og gefa honum magnesíum í æð.

Hvað ber að varast?

Það er áríðandi að vita að sum þvagræsandi lyf geta aukið magn magnesíums í blóði.  Þá hafa ýmsar tegundir sýklalyfja áhrif á magn í blóði sem og líka blóðþrýstilyf og beinþéttnilyf.  Hafa skal samband við lækni til að ræða skömmtun.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar á doktor.is logo

SHARE