Þvagsýrugigt er gigtarsjúkdómur, sem leggst oft á einn lið í einu og er þá oftast um að ræða smáliði á neðri útlimnum. Oftast verður stóra táin fyrir barðinu. Táin bólgnar og verður rauð og aum, svo aum að minnsta hreyfing getur valdið gífurlegum sársauka.
Hvað veldur þvagsýrugigt?
Sjúkdómurinn orsakast af þvagsýrukristöllum sem falla út í liði. Þvagsýra er aukaafurð sem myndast við niðurbrot á kjarnsýrum í líkamanum. Undir venjulegum kringumstæðum losar líkaminn sig við niðurbrotsefnið með þvagi, en hjá einstaklingum sem hafa þvagsýrugigt safnast þvagsýra fyrir í blóðinu. Hjá sumum verður uppsöfnunin svo mikil að þvagsýrukristallar falla út í liði, og stundum í húð.
Hvernig myndast þvagsýrugigt?
Þvagsýrugigt má skipta í tvær gerðir:
Þvagsýrugigt vegna meðfæddrar truflunnar á niðurbroti á kjarnasýrum. Líkaminn getur þá ekki skilið þvagsýru nægjanlega hratt úr líkamanum
Þvagsýrugigt sem kemur í kjölfar annars sjúkdóms eða vegna inntöku vissra lyfja ,t.d. sumra þvagræsilyfja og lyfja sem innihalda salicýlsýru. Þvagsýruframleiðslan er þá svo mikil að nýrun ráða ekki við að skilja hana út.
Hvað einkennir þvagsýrugigt?
Áður en einkenna verður vart líða yfirleitt nokkur ár þar sem þvagsýra í blóði eykst smám saman. Þetta ástand nefnist einkennalaus þvagsýrudreyri (óhóflega mikið magn þvagsýru í blóði) og hjá 95% þessa fólks kemur þvagsýrugigt aldrei til sögunnar. Algengt er að fyrsta verkjakastið komi að næturlagi.
Þú vaknar um miðja nótt með gífurlega verki í lið, oftast í stóru tá eða öðrum smáliðum á neðri útlimum, en verkurinn getur einnig verið í smáliðum efri útlima, hné eða öxl.
Liðurinn er bólginn og húðin jafnvel blárauð.
Verkirnir eru það miklir að sjúklingurinn þolir jafnvel ekki minnstu snertingu, eins og af laki eða sæng yfir tánni.
Fyrsta verkjakastið varir yfirleitt í u.þ.b. viku ef það er meðhöndlað með lyfjum, annars varir það mun lengur. 10% sjúklinga fá aldrei aftur einkennin. Hin 90% munu hinsvegar fá tíðari og lengri köst án meðhöndlunar.
Án meðhöndlunar munu endurtekin þvagsýrugigtarköst valda varanlegum skaða í liðnum sem kristallarnir falla út í.
Ef fyrirbyggjandi meðferð er ekki hafin, geta þvagsýrukristallar fallið út í húð, brjósk, sinar og fleiri staði. Þegar kristallarnir mynda litlar útfellingar í húðina, umhverfis liði eða á utanvert eyra, nefnast þeir þvagsýrugigtarhnútar.
Eftirfarandi þættir stuðla að þvagsýrugigt:
- ofneysla áfengis
- fæðutegundir, sem innihalda mikið magn próteinefna, svo sem lifur, nýru, sardínur og ansjósur
- offita
- blæðingar í meltingarvegi
- meiðsli sem valda mikilli eyðileggingu á vefjum líkamans
- lyf t.d. sum þvagræsilyf.
Hvað er til ráða?
- Minnkaðu alkóhólneysluna.
- Varastu fæðutegundir sem vitað er að ýta undir köst.
- Gættu að þyngdinni.
- Í þvagfærum geta þvagsýrukristallar myndað steina. Drekktu gjarnan 10-12 vatnsglös á dag til að bæta flæði um þvagfærin.
- Læknirinn þinn ætti að fara yfir lyfin þín.
Hvernig greinir læknirinn sjúkdóminn?
Greiningin er yfirleitt byggð á sjúkdómseinkennum. Til að útiloka aðra gigtarsjúkdóma mun læknirinn að öllu jöfnu taka blóðprufu til að mæla þvagsýrumagnið. Einnig er hægt að sjá þvagsýrukristalla við skoðun á liðvökvanum, og ástand liðar við röntgenmyndatöku.
Horfur
U.þ.b. 60% þeirra einstaklinga sem fá þvagsýrugigtarkast munu fá samsvarandi eða verra kast innan árs. Sjúkdómurinn getur valdið þeim aukakvilla að nýrnasteinar myndist.
Með nútíma læknisaðferðum er orðið mun auðveldara að meðhöndla og lifa með þvagsýrugigt.
Hver er meðferðin?
- Á meðan kastið stendur yfir er brýnt að lina verkina með verkjastillandi og bólgueyðandi lyfjum.
- Þegar kastið er gengið yfir, og leiðrétting á þeim þáttum sem stuðla að kasti ber ekki árangur, er gripið til lyfja sem minnka þvagsýrumagn í blóðinu. Það er mjög mikilvægt þar sem endurtekin köst geta skemmt liði og valdið nýrnabilun.
- Markmið meðferðarinnar er að lina verki og minnka bólgu, draga úr líkum á köstum og freista þess að vernda liði, fyrirbyggja myndun þvagsýrugigtarhnúta og myndun steina í þvagfærum.
Að lokum er mikilvægt að breyta lífsháttum eins og bent var á hér á undan.