Hvað er Tourette heilkenni og hvernig lýsir það sér?

Tourette heilkenni stafar af boðefnamisflæði í miðtaugakerfi heilans. Sýnileg einkenni eru ýmiss konar ósjálfráðar hreyfingar og ósjálfráð hljóð, þ.e.a.s. margskonar „kækir“. Um er að ræða fastmótaðar, tilgangslausar og skyndilegar hreyfingar og hljóð.

Fyrstu einkenni eru yfirleitt kippir í andliti þ.e.a.s. ákaft augndepl, grettur og höfuðrykkir. Einkennin færast gjarnan niður í hálsinn, axlirnar og búkinn og kippir í höndum, eða fótum verða dæmigerðir. Hljóðkækir koma nokkru síðar. Í byrjun eru hljóðin oft „eðlileg“, nefsog og ræskingar en þróast síðan út í annarskonar hljóð og upphrópanir.

Það er einkennandi að TS einkennin leysa hvert annað af hólmi og styrkleiki þeirra gengur í bylgjum. TS-einstaklingur getur lært að halda aftur af þeim tímabundið, en þá koma þau sterkar fram nokkru síðar. Með öðrum orðum, einstaklingurinn þarf að „tappa af“. Kippirnir eru yfirleitt kröftugri innan veggja heimilisins en í skólanum. Einkennin versna við allt álag, hvort sem álagið er neikvætt eða jákvætt.

Sjá einnig: Millirifjagigt getur verið af ýmsum toga

Greining og meðferð

Mikil hætta er á að einkenni Tourette heilkenna (TS) séu túlkuð sem taugaveiklun eða geðrænn sjúkómur. En það er mikill misskilningur.

Margt fólk veit ekki að það er haldið þessum heilkennum þrátt fyrir að rannsóknir bendi til að 5 af hverjum 1000 jarðarbúum séu haldnir Tourette heilkenni.

Einkennin koma yfirleitt í ljós á fyrstu skólaárum. Tourette heilkenni er ólæknandi kvilli, en hægt er að beita ýmsum brögðum til að halda einkennum í lágmarki, þá helst með lyfjum. Ekkert mælir á móti því að einstaklingur með TS, geti lifað venjulegu lífi.

Algengir fylgifiskar

Kækir eru aðaleinkenni Tourette og ekki þurfa að vera önnur einkenni til staðar. Hins vegar eru nokkrir „fylgifiskar“ sem eru algengir með sjúkdómnum.

Þar á meðal eru áráttur og þráhyggja, athyglisbrestur og ofvirkni og ýmiss konar námsörðugleikar.

Áráttur

eru athafnir sem eru endurteknar aftur og aftur án sýnilegrar ástæðu. Til dæmis að þvo sér sífellt um hendurnar, burtséð frá því hvort þær eru óhreinar, að þurfa sífellt að athuga hvort slökkt sé á eldavélinni, útidyrnar læstar o.s.frv. Þá skiptir litlu máli þó viðkomandi viti í raun vel að hendurnar séu hreinar, dyrnar læstar. Þörfin til að framkvæma áráttuhegðunina er órökrétt, en mjög knýjandi.

Þráhyggja

eru mjög svipuð og áráttur nema um er að ræða hugsanir, frekar en athafnir. Algengt er að „festast“ í ákveðnum hugsunum, eða hafa það jafnvel á tilfinningunni að eitthvað slæmt muni gerast ef ekki er farið í gegnum hugsanirnar.

Einkenni á bæði áráttum og þráhyggju er að viðkomandi gerir sér fulla grein fyrir að hegðunin eða hugsanirnar eru fullkomlega órökréttar, en þarf samt að endurtaka þær aftur og aftur. Þetta getur augljóslega verið mjög truflandi í daglegu lífi. Hins vegar eiga áráttur og þráhyggja það sameiginlegt með kækjum að koma og fara, sem sé ganga í bylgjum.

Athyglisbrestur og ofvirkni

virðist stundum fara saman með Tourette, ásamt námsörðugleikum, en ekki er alltaf auðvelt að greina á milli hvað er hvað, til dæmis ef barn með TS á í erfiðleikum með að fylgjast með í skóla er ekki alltaf augljóst hvort um er að ræða athyglisbrest eða hvort barnið er hugsanlega „fast“ í þráhyggjum sem trufla einbeitingu þess. Hins vegar er ljóst að einhverskonar samband er oft á milli TS og athyglisbrests með ofvirkni.

Hvað er Tourette ekki?

  • Tourette er ekki sálrænn kvilli. Hefðbundin sálfræðimeðferð læknar ekki TS.
  • Tourette stafar ekki af mistökum í uppeldi. Hvorki of lítill – né of mikill agi orsakar TS.
  • Tourette er ekki það að hrópa upp blótsyrði í sífellu. Það er Coprolalia, sem er aðeins ein af ótal mörgum birtingarmyndum sjúkdómsins, og aðeins lítill hluti Tourettara fá það einkenni.

Lestu fleiri áhugaverðar greinar doktor.is logo

SHARE