Tvíburabróðir kallast dæld sem getur verið til staðar í húðinni á spjaldhryggssvæðinu. Algengast er að dældin liggi um 2 cm fyrir ofan endaþarmsopið. Í sumum tilfellum myndast dýpri hola sem endar í nokkurs konar göngum sem liggja undir húðinni. Þegar svo er, eru auknar líkur á að sýking verði.
Hvers vegna myndast tvíburabróðir?
Ekki er alveg að fullu ljóst hvernig tvíburabróðir myndast. Verið getur að kvillinn sé arfbundinn, um sé að ræða leifar frá fósturlífi, hár stingist inn í húðina og sýkist eða að um sýkingu í hársekk sé að ræða. Hvernig svo sem sjúkdómurinn byrjar eru einkennin þau sömu.
Einkenni
Tvíburabróðir er einkennalaus þar til sýking verður. Við sýkingu verður svæðið rautt, bólgið og aumt viðkomu og gröftur getur lekið út.
Hvenær á að leita læknis?
Ef vart verður við eittvað af eftirtöldum atriðum á þessu svæði:
- Eymsli
- Roða
- Hita í húðinni
- Bólgu
- Gröft
Sjá einnig: Hvað er til ráða við bakverkjum?
Hvernig greinir læknir sjúkdóminn?
Tvíburabróðir er greindur út frá sögu sjúklings og skoðun. Mikilvægt er fyrir lækni að vita hvort breytingar hafa orðið á svæðinu, hvort gröftur leki út, og hvort önnur einkenni séu samfara óþægindunum, s.s. dofi eða máttleysi í fótum eða truflanir á þvaglátum.
Hver er meðferðin?
Það fer eftir eðli sýkingarinnar hver meðhöndlunin er. Ef einungis er um að ræða yfirborðssýkingu í húðinni getur verið nægjanlegt að meðhöndla með sýklalyfjum. Oftar en ekki er sýkingin dýpri, holrúm hefur myndast þar sem hár og gröftur valda þrýstingi á aðliggjandi vefi. Þegar svo er, er nauðsynlegt að opna svæðið og hreinsa út hárleifar, dauða vefi og gröft auk meðferðar með sýklalyfjum. Eftirmeðferð felst svo í því að halda svæðinu hreinu og ef mikill hárvöxtur er á svæðinu er rakstur ráðlagður í sumum tilfellum.
Fleiri heilsutengdar greinar má finna á
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.