Vistmenning er þýðing á enska hugtakinu permaculture, sem á uppruna sinn í hugmyndafræði áströlsku náttúruunnendanna Bill Mollison og David Holmgren. Í stuttu máli felur hugtakið í sér aðferðir og hönnun sem gerir heimilum og samfélögum kleift að auka við sjálfsþurftarbúskap sinn, virða náttúrulegt umhverfi og leitast við að finna vistvænar lausnir til að bæta umhverfið til lengri tíma í stað þess að ganga sífellt á auðlindirnar.
Umhverfisvernd er sérlega mikilvæg á okkar tímum þar sem afleiðingar mannskepnunnar í garð jarðarinnar eru farnar að hafa alvarlegar afleiðingar. Í skýrslu frá loftlagsnefnd Sameinuðu þjóðanna sem birt var fyrir skemmstu kemur fram að gögn sem sýna áhrif hækkandi hitastigs eru tvöfalt fleiri nú en í síðustu skýrslu, sem birt var árið 2007. Þar segir jafnframt að með áframhaldandi hlýnun jarðar aukast líkurnar á harkalegum, útbreiddum og óafturkræfum áhrifum. En hitastig hefur nú þegar hækkað í öllum heimsálfum. Þetta er ógnvænleg þróun sem sporna þarf við og er vistmenning skref í þá átt.
Lífræn matjurtarræktun í heimagörðum
Vistmenning hefur líka verið kölluð vistræktun vegna þess að hugmyndafræði hennar nær yfir lífræna ræktun. Hérlendis hefur matjurtarræktun sífellt færst í aukanna, með hverju árinu má sjá meiri grósku í görðum landsmanna en aukinn áhugi á matjurtarræktun kom í kjölfar kreppunnar. Að rækta sitt eigið grænmeti er leið í átt til sjálfbærni og alveg í anda vistmenningar. Sömuleiðis endurvinnsla á heimilssorpi þ.m.t. lífrænum úrgangi sem notaður er í jarðvegsgerð.
Umhverfisskipulag og hönnun
Hugmyndafræði vistmenningar spannar vítt svið þegar kemur að skipulagi og hönnun. Arkitektar og aðrir sem vinna á því sviði eru orðnir miklu meðvitaðri um umhverfisvernd í dag enda hafa kröfur samfélagsins aukist í þeim efnum. Í vistvænum byggingum er t.d. miðað við sparsama og skynsamlega orkunotkun. Byggingarefni skulu vera úr sem náttúrulegustum hráefnum og form bygginganna sjálfra ættu að laga sig að landslaginu. Í skipulagi vistvænna byggðakjarna er gert ráð fyrir hjólreiðar- og göngustígum sem hvatningu til fólks að minnka notkun ökutækja. Við hönnun garða er gert ráð fyrir að matjurtir séu notaðar bæði til skrauts og skjóls. Lagt er til að plöntum sé komið haganlega fyrir til að ná hámarksuppskeru með sem minnstri vinnu. Sem dæmi má nefna að plöntur sem notaðar eru dagsdaglega eins og kryddjurtir ættu að vera næst húsinu, það sem notað er einu sinni í viku ætti að vera fjær osfrv. Tré eru valin með tilliti til vindátta, vaxtarhraða og nytja því um leið og skjól myndast í görðum hækkar hitastigið og öll ræktun verður auðveldari. Talað er um að ekki spilli að geta komið fyrir tjörn hvort sem er í heimilis- eða almenningsgarði því þær tempra hitasveiflur og hafa góð áhrif á jarðveginn og ég tala ekki um ef hægt er að koma við gróðurhúsi til lengja ræktunartímann. Minnst er á hænur í heimilisgörðum sem bæta vistkerfið að því leyti að þær skaffa áburð, halda meindýrum í skefjum og minnka heimilssorp með því að borða matarafganga. Af þessu má álykta að hönnunin gegni margþættu hlutverki til að viðhalda sjálfbærni á staðnum.
Félagsleg samábyrgð og fræðsla
Vistmenning stuðlar að því að fræða íbúa um umhverfismál svo að sem flestir verði meðvitaðir og geti þannig haft jákvæð áhrif á nánasta umhverfi sitt. Allir geta lagt sitt af mörkum og flestir eru farnir að skilja ábyrgð sína í umhverfisvernd og ganga til daglegra verka með hagsmuni móður jarðar að leiðarljósi. Námskeið í vistræktun hafa verið haldin um allan heim og geta allir tekið þátt í þeim sem hafa áhuga á ræktun og leiðum til sjálfbærra lifnaðarhátta. Þess má geta að næsta námskeið hérlendis í þessum fræðum verður haldið í júní nk. á Alviðru í Ölfusi sjá nánar HÉR
Aldingarður í Flórída
Til gamans læt ég fylgja með vídeó sem ég fann á youtube en þar segir frá hjónum sem hafa breytt garðinum sínum í Flórída í sannkallaðan aldingarð og byggja þau vitneskju sína á fræðum vistmenningar. Fyrir áhugasama er hægt að nálgast videóið HÉR.
Heimildir:
http://www.nlfi.is/vistraekt-fyrir-alla
https://www.facebook.com/natturan.is?fref=ts
http://www.mbl.is/greinasafn/grein/428488/
http://eyjan.pressan.is/frettir/2014/03/31/sameinudu-thjodirnar-loftslagsbreytingar-ogna-milljordum-manna/
Þóra er keramikhönnuður og starfar sem slíkur á vinnustofu sinni í Hafnarfirði ásamt pistlaskrifum og kennslu. Þóra reynir að tileinka sér umhverfisvæna mannasiði á sem flestum sviðum og notar t.d. sem náttúrulegust hráefni í hönnun sína. Hún hefur tekið þátt í fjölda sýninga bæði hér heima og ytra ásamt því að hafa komið að rekstri tengdum heilsu og hönnun.