Náttúrulyf og náttúruvörur er tvennt ólíkt en samt eru skilin á milli ekki alltaf augljós. Mikið er af þessum efnum í umferð og víða eru boðin efni til sölu sem ekki uppfylla ströngustu skilyrði. Hér að neðan er stuttlega fjallað um hvaða skilyrði eru fyrir annars vegar náttúruvörum og hins vegar náttúrulyfjum. Það sem hér kemur fram á ekki við um matvæli, þar á meðal náttúruvörur og fæðubótarefni sem uppfylla ekki skilyði um viðurkennt lyfjaform og teljast því matvæli í skilningi laganna.
Náttúruvörur innihalda náttúruefni sem annað hvort eru fæðubótarefni eða teljast á annan hátt geta haft hollustugildi. Náttúruvörur eru oft bættar vítamínum og/eða steinefnum. Skv. skilgreiningu í reglugerð er náttúruefni efni sem eru lítið eða ekkert unnin úr örverum, plöntu- eða dýrahlutum. Þau verða að uppfylla skilyrði um að vera á skilgreindu lyfjaformi (t.d. töflur, hylki, dropar, duft o.s.frv.). Þær náttúruvörur og þau fæðubótarefni sem ekki eru á þessum viðurkenndu lyfjaformum teljast matvæli.
Lyfjastofnun heldur utan um þau efni/vörur sem teljast náttúruvörur og eru leyfðar hér. Lyfjastofnun veitir leyfi til innflutnings og sölu á náttúruvörum. Náttúruvörur má selja í almennum verslunum. Heimilt er að auglýsa náttúruvörur en ekki má segja í auglýsingu um náttúruvörur að varan hafi fyrirbyggjandi áhrif, lækni eða lini sjúkdóma, sjúkdómseinkenni eða verki eða hafi áhrif á líkamsstarfssemi. Á það við um allar auglýsingar og kynningar s.s. í fjölmiðlum, á heimasíðum, bæklingum o.s.fr. Ef auglýsa á náttúruvörur á einhvern fyrrnefndan hátt verður að fá vöruna skráða sem náttúrulyf.
Sjá einnig: Hvað eru samheitalyf?
Náttúrulyf innihalda eitt eða fleiri virk efni sem unnin eru á einfaldan hátt úr plöntum, dýrum, örverum, steinefnum eða söltum. Hrein efni einangruð úr náttúrunni teljast ekki náttúrulyf. Náttúrulyf eru eingöngu ætluð til inntöku eða staðbundinnar notkunar á húð eða slímhúðir. Ekki má blanda í náttúrulyf lyfseðilsskyldum efnum. Ekki má merkja eða markaðssetja vöru með orðinu „náttúrulyf” nema hún hafi verið skráð og fengið markaðsleyfi skv. reglugerð um markaðsleyfi náttúrulyfja. Ef slíkt markaðsleyfi á að fást þarf varan að uppfylla ströng skilyrði um gæði, öryggi, verkun, framleiðslu, hráefni og fleira.
Náttúrulyf verða að henta til sjálfslækninga og þeim á að fylgja íslenskur fylgiseðill og/eða notkunarleiðbeiningar á íslensku eftir því sem við á. Handhafa markaðsleyfis/umboðsmanni er skylt að fylgjast með því hvort aukaverkana verður vart við notkun náttúrulyfs. Ef vart verður við aukaverkanir skal senda lyfjanefnd án tafar upplýsingar um slíkt. Lyfjastofnun getur afturkallað markaðsleyfi fyrir náttúrulyf ef ekki er farið eftir lögum og reglum.
Dæmi um náttúruefni/náttúrulyf:
Drottningarhunang
Eleutherococcus (Síberíu ginseng)
Fjallagrös
Ginkgó
Ginseng
Glitbrá (Feverfew)
Hvítlaukur
Jóhannesarjurt
Kvöldvorrósarolía
Própólis
Saw Palmetto
Sólhattur
Yukka
Kidda Svarfdal er ritstjóri og eigandi Hún.is en hún er frá Djúpavík á Ströndum. Hún fór á bát og snjósleða í skólann þegar hún var lítil og var í heimavist í Finnbogastaðaskóla. Hún hefur haft gaman að krossgátum og íslensku frá unga aldri og hefur skrifað ljóð, sögur, pistla og fleira. Ásamt því að skrifa á Hún.is er Kidda, ásamt fjölskyldu sinni, mikið í Djúpavík þar sem fjölskyldan er með ferðaþjónustu.