Maður kemur úr vinnunni seint, þreyttur og pirraður og hittir 5 ára son sinn sem bíður eftir honum við útidyrahurðina.
Sonur: “Pabbi, má ég spyrja þig að svolitlu?”
Maðurinn: “Já, auðvitað”
Sonurinn: “Hvað færð þú mikinn pening fyrir einn klukkutíma í vinnunni?”
Maðurinn: “Hvað kemur þér það við?” svarar maðurinn önugur, “af hverju spyrð þú svona?”
Sonurinn: “Mig langar bara svo að vita hvað þú færð mikinn pening fyrir klukkutíma í vinnunni”
Maðurinn: “Fyrst þú endilega vilt vita það þá fæ ég 4000 krónur á tímann”
Sonurinn: “Ó” og verður niðurlútur, en segir svo; “Pabbi má ég fá lánaðar 2000 krónur?”
Maðurinn verður reiður og segir; ” Ef eina ástæðan fyrir því að þú spurðir var að fá lánaðann pening til að geta farið að kaupa eitthvað bölvað dót eða einhverja vitleysu getur þú bara farið beint í rúmið. Þetta er bara eigingirni. Heldur þú að ég vinni eins og skepna alla daga til að kaupa eitthvað krakkadót!?”
Drengurinn fór inní herbergið sitt og lokaði hurðinni.
Maðurinn varð bara reiðari eftir því sem hann hugsaði meira um þessar heimskulegu spurningar og að eina ástæðan fyrir þessum spurningum hefði verið að næla í pening hjá honum!?
Eftir klukkustund hafði maðurinn róað sig aðeins og fór að hugsa;
Kannski vantaði drenginn hans eitthvað fyrir 2000 krónur sem hann vissi ekki um, hann spurði nú ekki um peninga það oft, eða leikföng, eða nokkuð annað ef útí það var farið. Maðurinn opnaði hurðina að herbergi sonar síns.
“Ertu sofandi vinur?” Spurði hann.
“Nei, ég er vakandi,” svaraði drengurinn.
Maðurinn: “Ég fór að velta fyrir mér hvort ég hefði ekki verið of fljótur á mér áðan með því að verða reiður. Þetta var langur erfiður dagur í vinnunni og ég lét það bitna á þér. Hérna eru 2000 krónurnar sem þú baðst um.”
Drengurinn settist brosandi upp í rúminu sínu, “takk pabbi minn!” hrópaði hann. Tók síðan undan koddanum sínum tvo krumpaða seðla og dálítið af klinki.
Maðurinn sá að drengurinn átti pening fyrir og varð frekar pirraður.
Drengurinn byrjaði að telja peningana sína og lítur svo upp til föður síns.
“Af hverju varstu að biðja um pening þegar þú áttir þegar til eitthvað?” sagði maðurinn önugur.
“Af því að ég átti ekki nóg, en núna á ég nóg,” Svaraði litli drengurinn, “pabbi, núna á ég 4000 krónur og get borgað þér fyrir einn klukkutíma. Getur þú komið fyrr heim á morgun og við getum borðað saman?”
Þetta er áminning fyrir þá sem ætla að lifa seinna, eyða tíma með þeim sem þeir elska seinna, þegar markmiðunum hefur verið náð eða þegar það er til peningur, eða… hvað sem er.
Mundu að tími með þeim sem þú elskar er dýrmætur og áður en þú veist af er hann þrotinn, ef þú deyrð á morgun verður fyrirtækið sem þú vinnur hjá búið að fá annan í þinn stað eftir nokkra daga, þeir sem elska þig fá engann í staðinn.