Hvað gerir miðaldra kona í dag ef hana langar á stefnumót?

Góð vinkona mín á facebook skrifaði smá hugleiðingar um stefnumót kvenna um fimmtugt, ég fékk góðfúslegt leyfi til að birta hugleiðingar hennar enda snertir þetta margar konur sem eru á svipuðum stað í lífinu.

 

Hugleiðingar miðaldra konu, eða ætti að segja konu sem komin er yfir miðjan aldur þar sem ég verð fimmtíu ára eftir viku. Ég á tvö uppkomin börn, hef aldrei verið gift eða í sambúð. Ég eins og flestar ungar stelpur átti mér draum um framtíðina, minn draumur var að búa í sveit, eiga góðan mann, a.m.k. átta börn, vera heimavinnandi, skrifa ljóð og mála. Þessi draumur breyttist þegar ég komst á unglingsárin, ég vildi vera frjáls, óbundin, langaði að ferðast og njóta ævintýra. Ég sagði pabba mínum að hann fengi aldrei að leiða mig upp að altarinu og ég veit að honum sveið pínu undan því, enda er ég eina stelpan hans og var í þokkabót mikil pabba-stelpa. Ég kynntist ástinni sem var yndislegur tími og hefði trúlega verið tilbúin að kollvarpa öllum mínum fyrri ákvörðunum, en fljótlega kom í ljós að ástin var ekki endurgoldin sem var mikil höfnun. Eftir að börnin mín fæddust var ekki spurning í mínum huga að þau fengju allan minn tíma og orku, ég ætlaði að vera einstæð móðir. Fljótlega kom í ljós að sonur minn þurfti meiri tíma, orku og vinnu en flest börn en þökk sé „snemmtækri íhlutun“ greindist hann snemma með þroskafrávik og hægt var að hjálpa honum, vonum framar. Ég er svo þakklát fyrir yndislegu börnin mín, þau eru á góðum stað í lífinu og þurfa mun minna á mömmu sinni að halda. Það er einmitt þess vegna sem ég er að hugleiða það hvernig það er að vera einhleyp miðaldra kona. Fjölskylda mín og vinir hafa létt mér lundina í gegnum árin og hefur mér tekist oftast nær að vera jákvæð og þakklát fyrir það sem lífið hefur gefið mér. Auðvitað komu erfiðir tímar, til dæmis þegar ég þurfti að taka stórar ákvarðanir varðandi börnin mín og þegar ég missti foreldra mína, á þeim augnablikum lífsins hefði ég viljað hafa einhvern þó fjölskylda og vinir væru mér ómetanlegur stuðningur. Ég hef reyndar ekki verið alveg ein í gegnum árin, hef bara ekki viljað fast samband eða blanda börnunum mínum í þau sambönd. Ég er hamingjusöm, ekki misskilja mig, ég hef svo margt til að vera þakklát fyrir og gleðjast yfir, er mikil félagsvera, drífandi, jákvæð og með mjög létta lund, virk í félagslífinu og veit fátt betra en að gefa til samfélagsins. Þegar ég var yngri var fjölskyldan og vinirnir endalaust að spyrja mig hvort ég ætlaði ekki að fara að finna mér mann og reyndu að koma mér á stefnumót en gáfust fljótlega upp. Núna er ég frjáls, óbundin, langar að ferðast og njóta ævintýra, en ekki ein. Síðastliðin ár hef ég verið að hugsa um þetta meira og meira, mig langar á stefnumót en langar ekki að fara út á skemmtanalífið eða á sambandsíður á netinu til að kynnast karlmanni svo ég spyr sjálfa mig, hvað gerir miðaldra kona í dag ef hana langar á stefnumót?

 

SHARE