Þegar sumri hallar fara margir að taka sig á varðandi heilsutengda hegðun og breyta lífstíl.
Hvað getum við gert til að viðhalda góðri heilsu til langframa og þar með spornað við lífstílstengdum áhættuþáttum? Hvað getum við gert til viðbótar við lyfjagjöf og fyrirmæli læknis til þess að stuðla að betri heilsu til framtíðar? Þetta eru spurningar sem flestir ættu að íhuga hvort sem fólk er heilt heilsu eða ekki og sér í lagi þeir sem vinna kyrrsetustörf að staðaldri.
Sjá einnig: Heilsa og vellíðan í vaktavinnu
Í upphafi er mikilvægt er að setja sér markmið sem hæfa eigin líkama og hvaða þætti heilsunnar við viljum bæta. Markmiðin þurfa að vera raunhæf þ.e. litlar breytingar í einu en vera staðfastur og halda sig við þær. Áhersluorðið er að ,, byrja“ og flækja ekki hlutina um of. Einfaldar og fáar breytingar í senn eru vænlegastar til árangurs og þegar þær eru orðnar hluti af daglegri rútínu er hægt að bæta við fleirum.
Gott er að gera sér grein fyrir hvaða heilsufarsþáttum er ráðlegt að fylgjast með til þess að athuga hvort lífsstílstengdir áhættuþættir séu til staðar. Þessir þættir eru t.d. blóðþrýstingur, blóðfita (kólesteról) og blóðsykur. Einnig er gott að gera sér grein fyrir fjölskylduáhættu tengt hjarta- og æðasjúkdómum og láta fylgjast með þeim áhættuþáttum.
Sjá einnig: Hvað gerist ef of mikið járn safnast fyrir í líkamanum?
Aðrir heilsufarsþættir sem er gott að fylgjast með og tengjast ofþyngd og slæmum lífsstíl eru til dæmis:
- Líkamsþyngdarstuðull (BMI) er reiknaður út frá hæð og þyngd (kg/m²). Vert er að athuga að stuðullinn tekur ekki tillit til mismunanandi líkamsbyggingar og greinir ekki á milli þyngdar vöðva og fitu, þannig getur vöðvamikill og grannur einstaklingur fengið hátt BMI gildi. Stuðullinn gefur samt góða vísbendingu um hvar einstaklingar eru staddir m.t.t. ofþyngdar og áhættu á að þróa með sér hjarta- og æðasjúkdóma, sérstaklega þeir sem eru komnir vel yfir 30 í BMI.
- Mittis- og mjaðmahlutfall hefur verið talin góð mæling til viðbótar við líkamsþyngdarstuðul. Hlutfallið hefur jákvæða fylgni við innri kviðfitu, þ.e.a.s með vaxandi ummáli hækkar jafnframt innri kviðfita. Fjöldi rannsókna hafa sýnt að innri fita er talsvert hættulegri heldur en önnur líkamsfita, því hún tengist óeðlilegum efnaskiptum t.d. skertu sykurþoli og hækkun á slæmum blóðfitum sem svo auka líkur á sjúkdómum eins og fullorðins sykursýki og hjarta- og æðasjúkdómum.
- Fituprósenta: til að fylgjast með árangri af fitutapi er gott að mæla fituprósentu, þ.e. finna út fituhlutfall af líkamsþyngd. Til þess að ná árangri eða fá hagstæðara hlutfall fituprósentu þarf einstaklingur að stunda reglubundna hreyfingu og borða heilsusamlega fæðu í hóflegu magni.